Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu.

[10:41]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur fyrir löngu skipað sér á bekk sögunnar meðal illmenna sem eru tilbúnir til að beita valdi og virða í engu frelsi og líf almennra borgara eða fullveldi annarra ríkja. Svívirðilegir glæpir rússneskra hermanna gagnvart óbreyttum borgurum í Úkraínu vekja óhug og reiði. Þegar hildarleiknum í Úkraínu lýkur verða þeir sem ábyrgðina bera að svara til saka. Það er skylda okkar Íslendinga og annarra frjálsra þjóða að tryggja að svo verði.

Zelenskí, forseti Úkraínu, hefur tekið að sér að vera kyndilberi þeirra sem eru reiðubúnir að ganga á hólm við illskuna sem ógnar frelsi og fullveldi þjóða. Framganga hans og hugrekki úkraínsku þjóðarinnar hefur verið innblástur fyrir okkur öll sem höfum tekið frelsinu sem sjálfsögðum hlut.

Herra forseti. Þrautseigja og hugrekki hermanna og óbreyttra borgara í Úkraínu í baráttu gegn ofurefli hefur vakið aðdáun og látið fáa ósnortna. „Sýnið að þið séuð með okkur“, sagði Zelenskí í ávarpi til Evrópuþingsins stuttu eftir innrásina. „Sýnið að þið sleppið okkur ekki. Sannið að þið séu Evrópubúar og þá mun lífið sigra dauðann og ljósið sigra myrkrið.“

Innrás Rússa í Úkraínu hefur minnt þjóðir heims á að hernám einnar þjóðar rýrir frelsi annarra. Ef Úkraína fellur mun sólin á himni þínum verða daufari, svo vitnað sé aftur í orð sem Zelenskís. Innrásin í Úkraínu breytti heimsmynd okkar til frambúðar. Við Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir, höfum verið minntir rækilega á hve sameiginlegt öflugt varnarsamstarf NATO-ríkja og annarra frjálsra þjóða er mikilvægt. Værukærð, sakleysi eða rómantískar hugmyndir um vopnleysi og friðelskandi heim eru tálsýn sem í gegnum söguna hefur kostað þjóðir sjálfstæði og milljónir manna lífið. Það er skylda allra frjálsra þjóða að hlýða kalli Zelenskís og úkraínsku þjóðarinnar og styðja við bakið á fólki sem hefur sýnt hugdirfsku gagnvart yfirgangi og hrottaskap. Okkur ber með öllum ráðum að styðja frjálsa Úkraínu.