153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum.

[11:12]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hv. þingmaður deilir ekki þeirri skoðun minni að þetta sé verkefni sem við öll hér og reyndar allir í Evrópu og hinum vestræna heimi eru að glíma við og það þurfi að takast á við það sem slíkt. Þegar ég vísaði til þess að við værum á vaktinni þá var ég að vísa til þess. Það voru ekki söguskýringar, ég var bara að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að við höfum akkúrat verið að taka tillit til þeirra hópa sem hafa það erfiðast. Við gerðum það á síðasta ári og við ætlum að gera það áfram og núna í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Það var hluti af samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við gerð kjarasamninga fyrr í vetur að koma á laggirnar þeim hópum með þeim aðilum sem leggja áherslu á að við göngum hratt og örugglega til verks. Það er verið að vinna þannig. Ég held að hv. þingmaður hafi fullan skilning á því, að hann vilji að það sé ekki gert án þess að hlutirnir séu skoðaðir. Það er m.a. verið að skoða fyrirmyndir frá öðrum Evrópuþjóðum þar sem hlutirnir hafa gengið að mörgu leyti betur á þessu sviði. (Forseti hringir.) Við ætlum að læra af þeim og ég er sannfærður um að við munum geta það. (Forseti hringir.) Leiðin til að takast á við verðbólguna er að við komum öll að því borði og hættum að kenna hvert öðru um.