153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

loftslagsgjöld á flug.

[11:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra varðandi fyrirhuguð loftslagsgjöld Evrópusambandsins á flugrekstur. Þann 9. desember sl. var send út fréttatilkynning frá European Commission með fyrirsögninni, með leyfi forseta: „European Green Deal: new rules agreed on applying the EU emissions trading system in the aviation sector“, sem sagt að innleiða aukna gjaldtöku í flugstarfsemi. Þetta er 9. desember. Þann 15. júní í fyrra skrifar hæstv. forsætisráðherra bréf til Ursulu von der Leyen þar sem hún leitar ásjár og óskar eftir skilningi á sérstakri stöðu Íslands gagnvart þessu regluverki þar sem kemur fram að það verði rétt um tífaldur kostnaður t.d. sem leggst á flug sem lendir í Keflavík sem fer frá London Heathrow, annars vegar í gegnum Ísland og hins vegar í beinu flugi með British Airways frá London til JFK í New York. Nú hafa borist fréttir af því að svör hafi borist frá Ursulu von der Leyen en þau hafa ekki verið birt. En það vakti athygli mína 24. júní, níu dögum eftir að þetta bréf fer frá hæstv. forsætisráðherra, að á vef Stjórnarráðsins birtist frétt þar sem fjallað er um þetta mál og þar segir að innviðaráðherra hafi einnig vakið athygli á erindi forsætisráðherra meðal sinna starfssystkina í aðildarríkjum ESB, bent á alvarleika málsins og lagt áherslu á mikilvægi þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að mæta þessum sérstöku aðstæðum. Ég vil því spyrja hæstv. innviðaráðherra: Hvernig var þessum málaumleitunum ráðherrans gagnvart starfsbræðrum og -systrum sínum í Evrópu tekið í ljósi þess að þegar fréttatilkynningin berst hálfu ári seinna, þann 9. desember, virðist í engu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða Íslands?