153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

loftslagsgjöld á flug.

[11:23]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp í þinginu. Þetta er vissulega búið að vera til umfjöllunar í stjórnkerfinu býsna lengi og þar hjálpar til að við erum búin að koma því þannig fyrir að við erum með starfsmenn úti í Brussel sem fylgjast með, þannig að um leið og þessar hugmyndir fóru af stað þá vakti starfsmaður okkar athygli á því að það myndi hafa talsverð áhrif á flug til og frá Íslandi ef þetta gengi hvað verst fram. Við vorum í raun og veru í upphafi ferilsins að reyna að hafa áhrif og höfum verið að því síðan með fjölmörgum fundum og með ýmsum kollegum okkar og á ólíkum sviðum, bæði í samgönguráðuneytinu en, eins og hv. þingmaður benti á, líka með bréfi frá forsætisráðherra.

Ég hef átt fjölmarga fundi með m.a. starfsbræðrum mínum á Norðurlöndum sem og öðrum í Evrópusambandinu. Það er skilningur á þessum sjónarmiðum, enda höfum við unnið vinnuna okkar býsna vel og getum sýnt fram á að þessi hugmyndafræði, „Fit for 55“, sem er hugmyndin um að ná ákveðnum árangri í loftslagsmálum, næst alls ekki gagnvart flugi til og frá Íslandi. Þvert á móti, ef það versta gerðist og flugið færðist frá Íslandi þá yrði svokallaður loftslagsleki og það yrði meiri mengun í heiminum af þeim völdum. Umhverfisdeild Evrópusambandsins hefur hins vegar ekki gefið sig með aðferðafræðina. Þetta er kannski dæmi um, sem ég býst við að við hv. þingmaður séum sammála um, að skrifræði Evrópusambandsins er þungt.

Það skiptir máli að við höfum á hverjum tímapunkti komið okkar sjónarmiðum mjög skýrt á framfæri. Áður en málið færi til að mynda til umfjöllunar sem hugsanlega hluti af EES-samningnum eða eitthvað slíkt þá erum við algjörlega búin að tryggja að það sé skilningur og jákvæð afstaða hvað okkar afstöðu varðar. Við munum sjá (Forseti hringir.) hvernig því máli mun lykta en því er hvergi lokið.