153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

aðgerðir í geðheilbrigðismálum.

[11:32]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Það gleður mig að heyra að það sé vinna í gangi varðandi þetta brýna málefni. Bara svona til að kafa aðeins dýpra í það sem ég sagði í fyrri fyrirspurninni þá langar mig að benda á að eftir sameiningu sérhæfðrar geðendurhæfingardeildar á Kleppi fyrir fólk með alvarlega geðrofssjúkdóma og fíknigeðdeildarinnar á Hringbraut er fólk með alvarlega sjúkdóma og fólk með fíknivandamál sett á sömu deild inni á Hringbraut og þar með töpuðust tugir plássa á Kleppi og heil deild á 1. hæð á Kleppi fyrir fólk með alvarlega geðrofssjúkdóma.

Einnig er það þannig að þegar einhver eru sett í bráðainnlögn vegna geðrænna vandamála þá eru þau sett á hvaða deild sem er, bara þar sem er pláss. Ég hef heyrt sögur af því að það eru sjúklingar sem eru að glíma við þunglyndi og eru settir inn á sérhæfðu geðrofssjúkdómadeildina. Ég vildi því spyrja: Finnst hæstv. heilbrigðisráðherra ásættanlegt að fólk með geðræn vandamál sé innlyksa í vonlausu húsnæði á deildum sem það á ekki heima á? Finnst hæstv. heilbrigðisráðherra það vænlegt til árangurs til að veita fólki bráðameðferð í ófullnægjandi umhverfi?