Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[11:51]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langaði aðeins til að spyrja hann og ég er aðallega að hugsa um húsnæðismálin. Ég hef orðið vör við það, verandi í hv. velferðarnefnd, að ráðherra er að leggja mikla áherslu á að leggja fram mál sem eru í eðli sínu til þess að styðja við, ef við getum sagt sem svo, gagnasöfnun, faglegri stefnumótun og annað. Þetta er svona undirbúningsvinna sem er að eiga sér stað sem er til góðs og ég fagna því. En það sem ég hef aðeins áhyggjur af er að nú erum við endalaust að heyra af því hvað það er orðið erfitt fyrir fólk bæði að kaupa sér íbúð, eignast íbúð, og greiða af lánum sem fara hækkandi. Það er mikið óöryggi sem fólk er að upplifa á húsnæðismarkaði og hvað þá leigumarkaði. Það er lægst launaða fólkið á Íslandi sem er á leigumarkaðnum og er að ströggla þar. Ég sé ekki að það sé verið að fara í neinar brýnar aðgerðir og þá spyr maður sig hvort hæstv. ráðherra sé með aðrar upplýsingar heldur en ég hef. Af hverju telur hann ekki brýnt að bregðast við því ástandi sem er í gangi núna í samfélaginu? Er hæstv. ráðherra ósammála því að það geisi neyðarástand núna á húsnæðismarkaði? Þá er ég líka að fókusera á leigumarkaðinn sem er orðinn mjög erfiður fyrir fólk. Mér þætti vænt um að fá svör við þessu.