Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[11:53]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að fyrirspurnin tengist kannski ekki frumvarpinu nema óbeint þá er ég mjög fús til þess að svara spurningum hv. þingmanns þar sem þau lúta kannski að afleiðingum þess að vera komin með húsnæðisstefnu. Við höfum enga húsnæðisstefnu, við höfum aldrei lagt hana fram. Þetta verður sú fyrsta sem kemur núna í vor eða síðla vetrar. Vegna hugmyndafræðinnar á bak við hana höfum við verið að leggja svona mikla áherslu á gagnasöfnun síðastliðin ára til þess að geta í raun og veru sett fram markvissa stefnu. Húsnæðismál hafa hingað til verið að ýkja allar efnahagsdýfur á Íslandi og núna að öllu öðru óbreyttu erum við að fara inn í eina slíka. Húsnæðismarkaðurinn er að frjósa og það verður ekkert byggt á næstu tveimur, þremur árum nema til komi einhvers konar opinber stuðningur. Þess vegna erum við búin að vera að byggja upp það kerfi að húsnæðisstefna ríkisins sé til jafnvægis við efnahagsmálin, að tryggja ævinlega nægilegt framboð miðað við þá þörf sem er á markaðnum og að geta brugðist við því með einhverjum hætti. Í raun og veru erum við að segja: Markaðurinn hefur ekki ráðið við þetta þannig að við, hið opinbera, þurfum að stíga þar inn í til að hjálpa til. Húsnæðisstefnan mun styðja slíkt. Við erum að vinna að samningum við fjölmörg sveitarfélög, búin að ganga frá samkomulagi við stærsta sveitarfélagið um ákveðna uppbyggingu þar sem tryggt er að til séu lóðir til að byggja íbúðir, allt að 2.000 á ári í Reykjavík og 4.000 á landinu öllu. Það mun gera okkur kleift að tryggja að það myndist ekki svona mikið ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar af því að neyðarástandið á húsnæðismarkaði er í raun búið að vera nokkur ár aftur í tímann. Við erum svolítið að reyna að byggja okkur inn í framtíð þar sem húsnæðisstefna, stefna hins opinbera í húsnæðismálum, mun frekar verða til jafnvægis heldur en til þess, eins og hún hefur verið, að ýkja efnahagssveiflurnar.