Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[11:55]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið og ég fagna þeirri vinnu sem er í gangi um að fara að stunda mögulega fagleg vinnubrögð við húsnæðisáætlanir og reyna að ná tökum á ástandinu í framtíðinni. Framtíðin skiptir máli. En það sem ég er kannski að benda á er að við erum á þeim stað núna í samfélaginu þar sem æ fleiri eiga erfitt með að finna þak yfir höfuðið fyrir sig og fjölskyldu sína og eru að ströggla á leigumarkaði. Fólk sér ekki lengur neina möguleika á að komast í öruggt húsnæði. Þetta er stækkandi hópur í samfélaginu. Auðvitað skiptir ótrúlega miklu máli að horfa til framtíðar og vera með framtíðarsýn, byggja hér upp betri húsnæðisstefnu og safna gögnum til að geta tekið faglegar ákvarðanir byggðar á góðum gögnum. Það skiptir allt saman gríðarlega miklu máli. En við hljótum á sama tíma að geta brugðist við því ástandi sem er núna. Við erum aðilar að mikilvægum mannréttindasamningum um t.d. efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Okkur ber skylda til að tryggja það að þegnar landsins, almenningur, hafi þak yfir höfuðið og búi við húsnæðisöryggi. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Er hann ósammála því að það sé þetta erfiða ástand á húsnæðismarkaði sem ég myndi ganga svo langt að kalla hálfgert neyðarástand? Er hann sammála því? Og ef hann er það, af hverju er ekki verið að fara í neina brýnar aðgerðir núna? Það var t.d. talað um leigubremsu hérna áðan í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Af hverju er ekki verið að fara í þær aðgerðir meðfram því að fara í þessar mikilvægu framsæknu framtíðarsýnaraðgerðir? — ef það meikar sens, afsakið, forseti.