Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

143. mál
[13:07]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði ekki tíma áðan til að svara því hvort auka ætti fjármagnið til Ríkisútvarpsins. Ég er ekki þar og það er ljóst að ég vil draga úr því. Nú þegar nefskatturinn er kominn upp í 6 milljarða og auglýsingatekjurnar eru 2 milljarðar þá er þetta 8 milljarða rekstur. Eins og hv. þingmaður kom inn á er Ísland fámennissamfélag og lítið land en þetta er gríðarlega mikið. Ef maður færi hart í að tala um inngrip í þennan markað, sem er orðinn stór hluti af heildarfjármögnun á íslenskum fjölmiðlamarkaði öllum, þá held ég að frekar væri ráð að hagræða og finna fjármagn fyrir innan en draga samt úr heildartölunni. Það þarf líka að ákveða hversu langt starfsemi Ríkisútvarpsins eigi að ganga í þáttagerð eða öðru, þar sem einkamarkaðurinn gæti kannski komið betur inn. Nú er ég ekki undirbúinn með allar þessar tölur. Það spratt upp umræða í þessu máli og mig langaði að koma inn á tilgang Ríkisútvarpsins og þessa lýðræðislega umræðu, þar sem gert er ráð fyrir þessu lýðræðislega samtali í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið eins og ég kom inn á áðan. Það er svona grunnurinn að þessu. Ég held að þetta sé bara svona brotabrot af heildardæminu. Útvarpsefni er miklu ódýrara en sjónvarp og það væri örugglega áhugavert að taka einstaka þætti sem sum okkar horfum kannski á, þætti sem eru kannski vikulega á RÚV, sem kostnaðardæmi á móti rekstri svæðisútvarps eða svæðisstöðvanna í dag. Ef þetta væri bara svæðisútvarp, (Forseti hringir.) hvaða kostnað værum við að tala um? Hvað myndi þetta kosta í samhengi hlutanna? Síðan þurfum við að ræða hvað okkur finnst sniðugt sem þjóð að hlutverk Ríkisútvarpsins sé, og það þurfum við alltaf að halda áfram að ræða.