Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland kærlega fyrir andsvarið. Það er einmitt mín reynsla sem talsmaður þess flokks sem ég sit fyrir á Alþingi, og það er auðvitað sú reynsla sem ég þekki best, sem er hvatinn að þessari vegferð minni og okkar flutningsmannanna. Það er sá raunveruleiki sem við þekkjum best þannig að við getum verið sammála um það. Og af því að ég kem úr þeirri átt og hef fylgst með þessari þróun og ég hef, þrátt fyrir ungan aldur, starfað þar í um tvo áratugi þá hef ég bara séð þessa þróun með eigin augum. Það skiptir svo miklu máli að stjórnmálaflokkar séu í virku og öflugu samtali bæði við fólkið og fyrirtækin í landinu og þar standa allir jafnfætis. Það hafa allir sama tækifærið til að tala við bæði fyrirtækin og fólkið í landinu. En hvatinn verður alltaf sífellt minni þegar þú ert kominn á ríkisspenann. Það er a.m.k. það sem vakir fyrir okkur flutningsmönnum. Ég ætla nú ekki að fara í hártoganir við hv. þingmann um ástæðu þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi safnað upp eignum eða um hlutverk hans sem burðarafls í íslensku þjóðfélagi í áratugi og ástæðu þess að svo margir, bæði einstaklingar og lögaðilar, hafa viljað styðja við þann málstað sem flokkurinn stendur fyrir. Ég vil miklu frekar ræða það hér sem hv. þingmaður kom inn á, og mér fannst hún einmitt taka undir það, að íslenskur almenningur ætti ekki að vera að halda uppi stjórnmálaflokkum á Íslandi nema bara fyrir tilstilli frjálsra framlaga. Það er mergurinn málsins, að við leggjum ekki þessar byrðar á almenning nema hann kjósi það sjálfur.