Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

starfsemi stjórnmálasamtaka.

38. mál
[15:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir svarið. Það væri gaman að fá pínulitlar vangaveltur líka í sambandi við það fjármagn sem rennur í auglýsingatekjur, hvert það er í raun og veru að fara og hversu mörgum það skapar atvinnu og hvernig það nýtist í okkar hringrásarkerfi, eins og ég myndi a.m.k. vilja meina.

Það er líka sérstaða Sjálfstæðisflokksins, það liggur algjörlega á borðinu, að hann hefur alltaf verið bendlaður við það að vera einmitt flokkur Samtaka atvinnulífsins. Það er bara alveg frábært. Þannig að það eru fyrirtækin í landinu, þau sem eru með alla vasa fulla fjár, meira og minna, sem eru styrktaraðila Sjálfstæðisflokksins og munu frekar greiða götu hans heldur en einhverra annarra stjórnmálaafla sem þau telja sér ekki eins hagfelld. Það liggur algjörlega á borðinu. Ég segi: Við skulum þá bara hreinlega greiða öllum jafnt ef við greiðum einhverjum eitthvað og láta alla sitja við sama borð. Sjálfstæðisflokkurinn fær vel á annað hundrað milljónir á ári. Ég veit ekki hvað hann fær núna vegna þess að þetta er alltaf miðað við hvað þú færð margar prósentur út úr kosningabaráttunni, þ.e. hversu mikið fé þú færð á milli handanna til þess að geta auglýst þig og haldið áfram þínu pólitíska grasrótarstarfi úti um landið. Það liggur á borðinu að sá stjórnmálaflokkur sem kannski rétt kemst hér inn með þrjá þingmenn eða eitthvað slíkt á í rauninni meira í vök að verjast. Honum eru ekki vegirnir eins greiðir í því að fjármagna sig og koma sér á milli staða á meðal kjósenda sinna eða bara yfir höfuð kjósenda á landsbyggðinni. Þannig að ef við erum að tala um eitthvert jafnræði þá skulum við bara láta alla hafa jafn mikið eða þá ekki neitt. Það er eiginlega þannig sem ég lít á það. Ég get ekki séð að það sé til bóta eða í neina jafnræðisátt að ætla að fara að auka framlög frekar frá fyrirtækjum vegna þess að ég veit það eins vel eins og hv. þingmaður hverjir það eru sem njóta helst góðs af því og það er Sjálfstæðisflokkurinn.