Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

almannatryggingar.

72. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Já, þetta var svolítið athyglisvert að fá engar forsendur og ekki neitt til að byggja á og geta áttað sig betur á, vegna þess að við vorum í rauninni með tvenns konar greiningu, annars vegar frá Hauki Arnþórssyni stjórnsýslufræðingi og hins vegar frá Capacent, sem skilaði okkur engu, akkúrat engu. Við vissum þó að inni í þeirri tölu sem þeir komu með var ekki tekið tillit til eins eða neins; lýðheilsunnar, breytinganna á því hvort það myndi létta á heilbrigðiskerfinu að eldra fólk myndi vinna lengur og allt þetta, og í rauninni hvað myndi verða greitt mikið í skatta.

Hins vegar held ég nú að það sé minna um það að þeir sem eru búnir að láta af störfum og hættir að vinna myndu skila sér aftur inn á vinnumarkaðinn á þessu aldursbili, heldur teljum við að þeir sem eru að fara að hætta myndu síður gera það og framlengja þá í rauninni vinnuferlið sitt ef þeim líður þannig. Þeir myndu bara halda áfram og hætta við að hætta, eins og maður segir, vegna þess að þeim líði bara vel við það sem þeir eru að gera.

En þetta snýst um val. Þetta snýst um val, að gefa einstaklingnum kost á því að vinna áfram án þess að refsa honum upp í tæplega 80% skerðingar og skatttöku, sem er algerlega bara fordæmalaust. Þetta er eiginlega ólýsanlegt. En, já, það hefði þurft kannski gera þriðju greininguna og hafa hana þannig að það væri mark á henni takandi. En eins og við þekkjum hér er allt reynt til að koma í veg fyrir það að málin hér, ekki síst hjá stjórnarandstöðuþingflokkum, nái fram að ganga. Og rökin sem eru þar að baki eru stundum afskaplega götótt og votviðrasöm.