Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

almannatryggingar.

72. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir hans svar. Ég held að hjörtu okkar slái í takt, eins og þau gera hjá okkur mörgum hér á hinu háa Alþingi og það er vel. Ef við lítum í raun á hvaða hópar það eru, eins og hann vísar gjarnan í, sem hafa það bágast, þá erum við búin að vera að berjast mjög mikið fyrir því — og gerðum það núna fyrir jólin þegar við vorum að berjast fyrir því að fá líka 60.300 kr. eingreiðslu fyrir eldra fólk. Við vorum komin upp í 2.088 einstaklinga sem voru eingöngu með framfærslu frá almannatryggingum og það hefði kostað ríkissjóð 126 millj. kr. Á sama tíma var hæstv. fjármálaráðherra að fá heimild í fjárauka upp á 6 milljarða til að kaupa í Snobbhill Landsbankans hérna niðri á Austurbakka, hæð þar, til þess að einhverjir ráðherrastólarnir hefðu fínna útsýni yfir flóann. Oft líður manni illa yfir því sem manni finnst vera ósanngjarnt. En þessi hópur sem þarna um ræðir eru meira og minna einstæðar eldri konur sem hafa ekki áunnið sér lífeyrisréttindi í gegnum starfsævina heldur eru af þeirri kynslóðinni sem meira og minna var heimavinnandi húsmæður og makarnir þeirra sáu um að afla tekna til heimilisins. Mjög mikið af elsta fólkinu okkar, elstu konunum, býr við þannig kjör. Þannig að hvernig sem á það er litið þá veit ég að við getum gert betur. Við getum alveg farið í málþóf um hvaðeina annað sem er, ef það má segja svo því að það er náttúrlega bannað að nota það hugtak, en við notum það, það er eina vopnið sem stjórnarandstaðan hefur. Og ef við myndum virkilega brýna kutana og taka saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum í stjórnarandstöðunni; vá, hvað ég held að við gætum gert það flott.