Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 68. fundur,  23. feb. 2023.

tekjutenging sekta fyrir umferðarlagabrot.

73. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um tekjutengingu sekta fyrir umferðarlagabrot. Meðflutningsmenn mínir á þessu frumvarpi eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jóhann Páll Jóhannsson og Tómas A. Tómasson.

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar þau ákvæði umferðarlaga og tilheyrandi reglugerða sem kveða á um sektir með það að markmiði að sektarfjárhæðir verði að jafnaði tekjutengdar. Starfshópurinn taki jafnframt til skoðunar hvaða brot geti fallið þar undir. Hópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 30. september 2023. Ráðherra leggi skýrsluna fyrir Alþingi eigi síðar en 30. nóvember 2023 og leggi jafnframt til nauðsynlegar lagabreytingar.

Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. löggjafarþingi (524. mál) og er nú lögð fram óbreytt að öðru leyti en því að tímafrestir hafa verið framlengdir um eitt ár.

Um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim gildir nú reglugerð nr. 1240/2019. Sektarfjárhæðir samkvæmt reglugerðinni eru misháar eftir tegundum og alvarleika brota, allt frá tugþúsundum upp í hundruð þúsunda króna fyrir algeng brot á borð við hraðakstur. Jafnframt er í 98. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, kveðið á um fullkomna samlagningu sekta ef um er að ræða brot gegn fleiri en einu ákvæði laganna sem varða sektum.

Hugmyndir um tekjutengingu sekta eru ekki nýjar af nálinni hér á landi. Frumvarp til nýrra umferðarlaga var lagt fram fjórum sinnum árin 2010–2013, síðast á 141. löggjafarþingi (179. mál) en náði ekki fram að ganga. Í frumvarpinu var lagt til að sektarfjárhæðir yrðu að vissu marki tekjutengdar. Þannig yrði heimilt að veita sakborningi allt að 25% afslátt af upphaflegri sektarfjárhæð ef hann hefur lægri tekjur en hálf önnur lágmarkslaun samkvæmt skattframtali síðasta almanaksárs. Í greinargerð með frumvarpinu var m.a. litið til 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir að þegar fjárhæð sektar er ákveðin skuli eftir því sem við á höfð hliðsjón af tekjum og eignum sakbornings, afkomu, framfærsluskyldu, öðrum atriðum er orka á greiðslugetu hans og þeim fjárhagslega ávinningi eða sparnaði sem leiddi af brotinu eða stefnt var að með því. Ákvæði þetta gildi í öllum tilvikum þegar fjársektir eru ákveðnar hvort sem er samkvæmt hegningarlögum eða sérrefsilögum, enda komi ekki annað fram eða verði leitt af ákvæðum sérrefsilaga. Þá sé ljóst að í gildandi umferðarlögum og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á lögunum sé ekki að finna ákvæði sem beinlínis geri ráð fyrir að horft sé til sambærilegra sjónarmiða, heldur taki sektir mið af broti hverju sinni og séu að verulegu leyti staðlaðar. Einnig var vísað til fordæma fyrir tekjutengingu sekta vegna umferðarlagabrota í nágrannalöndum.

Fordæmi fyrir tekjutengingu sekta vegna umferðarlagabrota fyrirfinnast m.a. í Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, en misjafnt er hversu langt er gengið í þeim efnum. Til að mynda geta einstaklingar í Danmörku sem sýna fram á sérstaklega lágar tekjur fengið sektir lækkaðar niður að tilteknu lágmarki. Í Finnlandi miðast sektir aftur á móti alfarið við tekjur greiðanda og er jafnframt litið til fjölskyldustærðar. Það fyrirkomulag á rætur að rekja til ársins 1921. Auk þess má nefna að fordæmi eru fyrir tengingu hámarksfjárhæða sekta sem eru lagðar á fyrirtæki við ársveltu þeirra, svo sem í samkeppnislögum og lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Flutningsmenn tillögu þessarar telja að fyrirkomulag staðlaðra sekta hér á landi þjóni ekki tilgangi sínum gagnvart hátekjufólki í sama mæli og það geri gagnvart fólki með meðaltekjur eða lægri tekjur. Til að mynda geta sektir fyrir hraðakstur sem ekki varðar öðrum viðurlögum numið allt að 130.000 kr., en það jafngildir meira en helmingi af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum þeirra sem lökust hafa kjörin, svo sem öryrkja sem hafa engar aðrar tekjur en lágmarksgreiðslur almannatrygginga. Að sama skapi er ljóst að sú upphæð hefði hverfandi áhrif á einstakling sem hefur margar milljónir í tekjur á mánuði. Með tilliti til sjónarmiða um varnaðaráhrif refsinga er því lagt til að komið verði á tekjutengingu sekta vegna algengustu tegunda umferðarlagabrota sem einstaklingar fremja án tengsla við atvinnu sína.

Komið getur til greina að sektir verði í hverju tilfelli ákveðnar þannig að hlutfall af grunnfjárhæð sektar samsvari hlutfalli tekna sakbornings samkvæmt skattframtali síðasta almanaksárs af meðaltekjum það ár. Þó getur einnig komið til greina að kveða á um tiltekið lágmark sektarfjárhæðar sem taki mið af tekjum þeirra hópa sem búa við lökust kjör, svo sem þeirra sem hafa engar aðrar tekjur en grunnbætur almannatrygginga. Jafnframt verði heimilt að meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklega framfærslugetu sakbornings en þær tekjur sem koma fram á skattframtali síðasta árs, líkt og gildir um árslaunaviðmið skaðabótalaga. Enn fremur kemur til greina að undanskilja frá tekjutengingu sektir vegna brota sem tengjast starfi sakbornings, svo sem umferðarlagabrot í starfi atvinnubílstjóra.

Því miður er staðan oft sú í íslensku samfélagi að það hallar illa á þá sem verst standa. Ef við erum á annað borð að setja refsingar á fólk, hvort sem það er fyrir umferðarlagabrot eða annað — sérstaklega í þessu tilfelli þar sem um umferðarlagabrot er að ræða, sem tekið er sérstaklega fram í þessu — þá er það stórfurðulegt að það skuli vera nákvæmlega sama sektin fyrir þann sem er að reyna að lifa af 200 þúsundum plús útborguðum á mánuði og þann sem er kannski með 20 millj. kr. mánaðarlaun, eins og maður hefur heyrt af nýjustu tölum, og fær þar af leiðandi a.m.k. 10 milljónir á mánuði útborgað. 130.000 kr. fyrir þessa tvo einstaklinga — það er bara himinn og haf á milli. Það er okkur eiginlega til háborinnar skammar að við skulum stilla hlutunum þannig upp, að sá sem hefur hæstu tekjurnar finnur ekki fyrir þessu.

Ef þetta væri tekjutengt í þessu tilfelli og við værum að tala um 50% af mánaðartekjum þess sem er á lægstu tekjunum, þá væri um 130.000 kr. að ræða. Ef við setjum það í samhengi við þann sem er á hæstu tekjunum og hann þyrfti að borga 50% af útborguðum launum sínum, sem eru komin yfir 10 milljónir, þá ætti hann samkvæmt því að borga a.m.k. 5 eða 6 milljónir til þess að vera í sambærilegri stöðu og þessi verst setti. Þannig bítur sektin báða jafnt, en ekki bara mjög illa annan aðilann á meðan hinn ypptir bara öxlum og finnur ekkert fyrir því og getur þess vegna haldið áfram að brjóta ítrekað af sér, í ótrúlega mörg skipti, áður en þetta nær því að bíta hann á nokkurn hátt nálægt því sem þessi lægst launaði einstaklingur finnur fyrir. Þetta gildir auðvitað líka um þá sem eru á lægstu launum.

Ef við höfum þennan fælingarmátt til að fæla fólk frá því að brjóta umferðarlög, þá hlýtur tilgangurinn að vera sá að það bíti alla jafnt, nema auðvitað að tilgangurinn með þessum lögum hafi verið, fyrst þeim er ekkert breytt, að það eigi að refsa þeim sem eru verst staddir mun verr, á kostnað þeirra sem hafa það langbest og þeir eigi að sleppa. Þeir mega að brjóta lög af því það bítur þá ekki neitt. Hinir sem eru á lægstu launum og bótum almannatrygginga, þeir þurfa að borga og þar þarf að láta þetta bíta. Slæmt er oft þeirra réttlæti, en verra þeirra ranglæti. Það lýsir sér langbest hér. Vonandi sér ríkisstjórnin að það er rangt að hafa þetta svona og breytir þessu. Finnarnir sáu það.