búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.
Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Með mér á tillögunni er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson, Guðmundur Ingi Kristinsson og Eyjólfur Ármannsson.
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem kveði á um eftirfarandi:
1. Ríki og sveitarfélögum verði skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir.
2. Færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn um það berst.
3. Öldruðum einstaklingum, sem dvalist hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar, verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými.
4. Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skuli, án tillits til þess hvort hann hafi gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni. Viðkomandi öðlist þá sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.
Ráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis á haustþingi 2023.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir að þingsályktunartillaga þessi hafi verið lögð áður fram 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi, 51. mál, en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram enn á ný, sem sagt í fimmta sinn. Þrátt fyrir skýrar vísbendingar um þörf á fleiri hjúkrunarrýmum og fögur fyrirheit um uppbyggingu hefur lítið gerst, allt of lítið gerst undanfarin ár. Árið 2007 voru hjúkrunarrými tæplega 2.700 en dvalarrými ríflega 700. Í lok árs 2022 voru hjúkrunarrýmin 2.790 og dvalarrýmin 120. Þetta er athyglisvert. Ef við erum að horfa á árin 2007–2022, 15 ár, þá hefur hjúkrunarrýmum fjölgað um 90 en dvalarrýmum fækkað um 571 nákvæmlega. Maður veltir fyrir sér hvers lags öfugþróun þetta er, á sama tíma og þessi ágætu stjórnvöld hrópa það hér alveg hreint alla daga að öldruðum sé að fjölga. Þau sýna með þessu verklagi sínu að þau eru ekki að taka mikið mark á því ef mið er tekið af því hversu fá hjúkrunarrými hafa bæst við í rauninni frá árinu 2007 til ársins 2022, búið að bæta við 90 hjúkrunarrýmum á 15 árum. Það skýrir kannski af hverju það er ekki hægt að útskrifa fólk sem hefur þegar undirgengist alla þá læknisaðstoð sem hægt er að veita því á sjúkrahúsi en það er samt sem áður látið liggja þar í dýrustu legurýmum landsins án þess að fá viðhlítandi búsetuúrræði. Á milli áranna 2007 og 2022 fjölgaði hjúkrunarrýmum um 90 á meðan dvalarrýmum fækkaði um 571. Þetta er alveg með hreinum ólíkindum. Þessi fjölgun rýma hefur því miður ekki leitt til styttri biðtíma fyrir fólk með færni- og heilsumat, eðli málsins samkvæmt. Því má álykta að átak ríkisstjórnarinnar í fjölgun hjúkrunarrýma hafi ekki tekið nægilega mið af fyrirséðri öldrun þjóðarinnar. Eða hvað finnst ykkur?
Þeim sem biðu eftir hjúkrunarrýmum fjölgaði um 103% á landsvísu á milli áranna 2014 og 2022. Á þessum átta árum jókst þörfin eftir hjúkrunarrýmum um 103%, hún meira en tvöfaldaðist. Á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu lengur en 90 daga eftir hjúkrunarrými um 35%. Frá árinu 2014 til 2022, á þessu átta ára tímabili, lengdist meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými úr 91 degi í 136 daga. Samkvæmt samantekt landlæknis eru í dag að jafnaði rúmlega 400 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými og rúmlega 40% þurfa að bíða lengur en 90 daga eftir rými. Hjá mér bjó minn yndislegi pabbi í ríflega tvö ár og beið eftir hjúkrunarplássi. Það er erfitt fyrir fullorðið fólk að vera í slíku róti, sérstaklega eins og faðir minn sem þekkir ekkert nema fjörðinn sinn fagra, eins og hann kallar Ólafsfjörð, og vill hvergi annars staðar vera, hvergi annars staðar bera beinin. Hann var orðinn tæplega 92 ára gamall og hafði ekki enn þá fengið hjúkrunarrýmisdvöl. Síðasta áratuginn jókst fjöldi þeirra sem voru 67 ára og eldri um 35%. Þannig að allt gengur þetta eftir, okkur fjölgar sem fáum að njóta þess að eldast. Á sama tíma jókst fjöldi fólks 80 ára og eldri um 13%. Tölurnar segja satt. Þær eru ekki að segja ósatt, þær styðja algjörlega við það sem þegar er vitað, að öldruðum fjölgar mjög. Við lifum lengur. Við erum heilbrigðari og frískari lengur. Gögnin gefa til kynna að öldrun þjóðarinnar muni halda áfram næstu áratugi og því er nánast víst að nauðsynlegt sé að fjölga hjúkrunarrýmum til muna á næstu árum.
Sveitarfélögin sjá um húsnæði fyrir hjúkrunar- og dagvistunarúrræði aldraðra en ríkið úthlutar fjármagni með hverjum og einum þeirra. Með þessu eru sveitarfélögin háð úthlutunum hjúkrunar- og dvalarrýma frá ríkinu og þannig strandar málið á því að sveitarfélög fá oft ekki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, fjármagn til að fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum og reka með viðhlítandi hætti.
Það eykur þrýsting á stjórnvöld ef hámark biðtíma eftir úrræði er lögfest. Það er verið að reyna að benda á það hér að einstaklingur á ekki að þurfa að bíða lengur en í tvo mánuði eftir því að fá viðunandi búsetuúrræði þegar hann hefur gengið í gegnum þetta svokallaða færni- og heilsumat. Ef ekki er fylgt lagaramma um hámark biðtíma getur það myndað skaðabótaskyldu vegna þess tjóns sem bið kann að valda þeim sem eiga rétt á úrræðinu.
Ég velti fyrir mér: Hvað er það sem kemur í veg fyrir það að við hættum að spara alltaf aurinn og fleygja krónunni? Hvað er það sem kemur í veg fyrir það að við greiðum mannsæmandi laun til þeirra sem eru að hugsa um eldra fólk í hjúkrunarrýmum og á dvalarheimilum? Þetta fólk er að fara annað. Hjúkrunarfræðingar fara margir hverjir annað, þeir fá ekki greidd laun í samræmi við starfið sem þeir eru að vinna. Ef þetta væru nú bankastjórar þá væri nú gaman. Þá væru þeir sennilega með tíföld eða tuttuguföld hjúkrunarfræðingalaun því það er metið mun hærra og meira að passa peninga en passa börnin okkar og fullorðna fólkið.
Það er lagt til að hámark biðtíma eftir dvalar- og hjúkrunarrými verði 60 dagar. Það er nóg að bíða og það myndi koma þvinga á og þrýstingur á að útskrifa fólkið mun fyrr af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það er alveg með hreinum ólíkindum að þarna skuli hafa verið allt að 140 einstaklingar liggjandi tvist og bast um sjúkrahúsið, jafnvel á göngum og hvar sem er, þegar spítalinn var í rauninni búinn að sinna öllu því sem þar var hægt að gera varðandi þeirra veikindi. Hvernig líður einstaklingi sem veit ekki hvar hann á heima og hann fær ekki utanumhald? Hvað erum við að gera fólkinu okkar með þessu? Við sem erum alltaf best í heimi, er það ekki? Erum við ekki alltaf best í heimi? Erum við ekki slá heimsmet í öllu? Ég held við hljótum að vera líka að slá met í þessu, hvernig við komum fram við fólkið sem er búið að erja hér jörðina í gegnum alla sína starfsævi en uppskera þeirra á efri árum er slík lítilsvirðing sem þeim er sýnd með því að gefa þeim ekki kost á öruggri búsetu síðasta æviskeiðið. Eins og ég sagði hér vegna frumvarps sem ég flutti fyrr í dag, efri árin eiga að vera gæðaár. Efri árin eiga ekki að vera vanlíðan og kvíði. Hjá mjög mörgu fullorðnu fólki sem er farið að glíma við gleymsku og er jafnvel á mismunandi stigum heilabilunar ríkir mikill kvíði. Þetta eru einstaklingar sem þurfa ást, umhyggju og utanumhald og finna að þeir geti treyst á umhverfi sitt. Það er okkar hér, virðulegi forseti, í þessum sal að sjá til þess að svo megi verða.
Það lengir verulega biðtíma eftir dvalar- eða hjúkrunarrými ef fólk þarf að bíða lengi eftir færni- og heilsumati. Þess vegna erum við líka með tillögu um það, það þarf oft að bíða alllengi eftir því. Ég veit ekki alveg hvernig forgangsröðunin er í þessu blessaða kerfi en hún er alla vega ekki skiljanleg í mínum huga oft og mörgum sinnum. Tryggja þarf að bið eftir færni- og heilsumati verði sem styst svo að fólk geti hlotið viðeigandi úrræði sem allra fyrst. Það má gera með bættri mönnun og auknu fjármagni til verkefnisins. Því er lagt til að skylt verði að gefa út færni- og heilsumat eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn berst.
Ef enginn vafi leikur á því að einstaklingur þurfi dvalar- eða hjúkrunarrými þá eiga ekki að vera hömlur í kerfinu. Það eiga ekki að vera flöskuhálsar. Þessir einstaklingar eiga ekki að keyra á vegg. Því er lagt til að öldruðum einstaklingum sem dvalið hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými þó að færni- og heilsumat hafi ekki verið gert. Við viljum gera hvað sem er til að standa við það að efri árin verði gæðaár.
Ég held að það sé varla til sá stjórnmálaflokkur og það framboð sem hefur ekki einhvern tímann á einhverjum stað, hvort heldur sem er í kosningabarátturæðum eða riti, sagt: Við skulum tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Það eru engir sem eru með aðrar eins áhyggjur eins og fólk sem er komið á þann stað að vera með ákveðna heilabilun, eins og ég sagði áðan, og finnur til óöryggis. Það er kvíðið, því líður illa og það er okkar hér að koma til móts við það þannig að efri árin verði gæðaár.