153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

innleiðing loftslagslöggjafar ESB.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að ræða hér um mál sem við ræddum líka á fundi hv. utanríkismálanefndar í morgun og varðar loftslagspakka Evrópusambandsins, en hluti hans snýst um flugsamgöngur og gjaldtöku á þær í gegnum hið svokallaða ETS-kerfi, sem við höfum raunar verið aðilar að í mörg ár, a.m.k. allt frá árinu 2012.

Það liggur algjörlega fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að við höfum talað mjög skýrt í samtölum okkar við Evrópusambandið því markmiðið með þessari innleiðingu eða löggjöf er að hvetja fólk til að velja aðra valkosti þegar farnar eru skemmri leiðir. Þar augljóslega spilar landfræðileg lega Íslands inn í þar sem meðalfjarlægð frá Íslandi til meginlands Evrópu er u.þ.b. 2.200 km á meðan meðalfjarlægð milli áfangastaða í Evrópu er kannski 850–1.000 km. Því er hér augljóslega töluverður munur á og munurinn er líka sá að við, íslensk stjórnvöld, segjum ekki við þau sem hér búa að þau geti tekið lest eða rútu til að ferðast á milli landa því sá möguleiki er ekki fyrir hendi.

Það sem við höfum rætt við Evrópusambandið er ekki að sleppa allri hækkun á öllum gjöldum heldur að gjöldin taki mið af landfræðilegri legu Íslands. Eins og þessi reglugerð er hugsuð þá mun Ísland borga hlutfallslega mun meira en önnur ríki, og það er óásættanlegt. Hv. þingmaður spyr hvort ég geti svarað skýrt. Ég get svarað því algjörlega skýrt að í ljósi þess að við erum ekki komin með umhverfisvænni lausnir í flugi (Forseti hringir.) er algerlega óásættanlegt að Ísland borgi svo hlutfallslega miklu meira en önnur ríki inn í þetta, einfaldlega vegna landfræðilegrar legu.