153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

hækkun persónuafsláttar og verkbann SA.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð greinilega að tala aðeins skýrara því að gliðnunin sem ég var að vitna hér til var sú að lægri þrepamörkin fylgdu neysluvísitölu en efri þrepamörkin fylgdu launavísitölu sem þýddi að smám saman hafði skattkerfið þróast þannig að þau sem voru með hærri tekjur þurftu að borga lægri skatta en ekki þau sem voru með lægri tekjur. Það er þessi gliðnun sem við stöðvuðum með skattkerfisbreytingunni 2019, sem ég var að fara hér yfir. Hún skilar því, vegna þessara breytinga, að skattar á heimili lækka um 6 milljarða kr. á þessu ári sem nú stendur yfir, 2023. Þær breytingar koma fyrst og fremst til gagns tekjulægstu hópunum vegna þess að þetta miðast núna við launavísitölu plús framleiðniaukningu. Þetta ræddum við hér á þingi. Við samþykktum þetta á þingi. Þetta var góð breyting, þetta var breyting í átt til aukins jöfnuðar og til þess að gera skattkerfið sjálfbærara.

Hvað varðar deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hef ég það eitt að segja að það hefur verið boðað til fundar í kvöld. Settur sáttasemjari vinnur að því hörðum höndum og hefur verið í samskiptum við báða aðila (Forseti hringir.) um mögulegar lausnir og verkbanni hefur nú verið frestað, sem er gott. Ég vona svo sannarlega að þessi fundur í kvöld verði árangursríkur.