153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

samningar vegna liðskiptaaðgerða.

[15:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Fyrst vil ég svara bara með einföldum hætti fyrstu spurningunni, sem er kannski stóra spurningin í þessu, hvort ég telji að þetta sé brýnt mál. Já, þetta er mjög brýnt mál. Þetta er risastórt lýðheilsumál og snýr að virkni fólks í daglegu lífi. Vissulega er fyrirkomulag sjúkratrygginga þannig að ef ekki nást samningar eða ekki er samið þá getur það einmitt haft þessi óæskilegu áhrif að mynda hreinlega biðlista og tvöfalda kerfið sem hv. þingmaður kom hér inn á. En við erum ekki einvörðungu að kljást við langa biðlista í dag þess vegna, við verðum að hafa það í huga, heimsfaraldurinn hefur þessi áhrif. Það er mjög brýnt að við nýtum alla afkastagetu í kerfinu, þótt ekki væri nema það. En svo er það líka heilbrigðisstefnan sem er okkur auðvitað alltaf hvatning til þess að ganga frá þessu máli. Biðlistar eftir fjölmörgum öðrum aðgerðum hafa lengst og umfram þessi ásættanlegu mörk, sem þó eru ekki klöppuð í stein, sem landlæknir gefur út með 30 daga í greiningu og svo 90 daga bið. Ég verð að svara hinu þannig að við höfum falið Sjúkratryggingum að leita eftir aðilum sem geta gert þessar aðgerðir til að bjóða í þær og við verðum að sjá hvað kemur út úr því. Sú auglýsing er farin út og ég bind miklar vonir við að það komi góð tilboð í það. Þá getum við betur séð hversu miklu við getum annað á þessu ári en við þyrftum að ná 1.500 aðgerðum á þessu ári til að vera komin á betri stað.