Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kom inn á það í minni ræðu að ég tel æskilegt að við aukum fjárveitingar til Atlantshafsbandalagsins þegar kemur að því að ráða þar íslenska starfsmenn sem munu þá um leið afla sér þekkingar á málaflokknum og auka þar með þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. Ég tel að við eigum að auka þennan mikilvæga þátt og ég kom inn á það í minni ræðu.

Hv. þingmaður minnist hér á ferð okkar sem er fyrirhuguð í utanríkismálanefnd til Washington. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að taka upp þessi mál. Þess vegna er verið að fara þessa ferð. Ég sé ekki að það sé eitthvað tilfallandi að ræða þetta, hv. þingmaður kom einhvern veginn þannig inn á það að þetta væri nú bara eitthvað sem brast á og þá sé rétt að nota tækifærið. Ég treysti þessu ágæta fólki sem starfar í þessum geira og við höfum þennan grundvöll þessa varnarsamstarfs sem eru Bandaríkin sérstaklega og vera okkar í NATO. Það fer að sjálfsögðu fram stöðumat á þeim vettvangi gagnvart okkur og við höfum varnarmáladeild, ef svo má segja, innan utanríkisráðuneytisins og fulltrúa í Norfolk á vegum utanríkisráðuneytisins sem heldur þessu upplýsingaflæði opnu þannig eins og þetta blasir við mér þá get ég ekki séð að það hafi verið einhverjir hnökrar í þessu samstarfi. Þvert á móti tel ég að sé mjög virkt. Við sjáum loftrýmisgæsluna og þá uppbyggingu sem á sér stað á varnarsvæðinu.