Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir sína ræðu. Ég verð þó að viðurkenna að það var ansi margt sem ég staldraði við í þeirri ræðu, ansi margar fullyrðingar sem ég get ekki tekið undir. Ég ætla þó að halda mig við það sem hv. þingmaður talaði um hæfið. Hún fullyrðir að það sé ekkert um hæfisreglur í skýrslunni sem er rétt og hefur margoft verið komið inn á og ég held að allir séu sammála um að það hefði verið heppilegra ef Ríkisendurskoðun hefði verið skýrari um þann þátt málsins. En það breytir því ekki að ríkisendurskoðandi segir á opnum fundi með nefndinni að hann hafi ekki komið auga á atvik þar sem fjármálaráðherra hafi haft nokkra ástæðu til að velta fyrir sér hæfi sínu við sölu á Íslandsbanka og það hafi í raun og veru verið skoðað en ekki kallað á neina frekari skoðun og þess vegna ekki að finna í skýrslunni.

Því langar mig að spyrja hvort hv. þingmanni finnist það vera það sama og að því hafi bara ekki verið sinnt. Með því veit ég ekki betur en að þingmaður sé að segja að allt það, sem er ekki svarað í skýrslunni, sé þá lögbrot. Fyrir mitt leyti held ég að þar sé um fráleita túlkun að ræða þar sem ríkisendurskoðanda ber að vekja athygli á lögbrotum ef hann verður þeirra var samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun. Hann rannsakaði þessa sölu, rannsakaði ákvarðanir ráðherra. Það benti ekkert til lögbrota. Hann vakti ekki athygli á neinu og þess vegna er það ekki að finna í skýrslunni. Er það álit hv. þingmanns að þarna sé ríkisendurskoðandi ekki að segja satt?