Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[18:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður fjallaði hérna aðeins um áframhaldandi sölu á bönkum ríkisins. Það eru tvö atriði sem ég klóra mér aðeins í hausnum yfir. Af hverju ættum við að treysta þessari ríkisstjórn og þessum fjármálaráðherra að búa til nýtt fyrirkomulag um áframhaldandi sölu á bankakerfinu miðað við þá stöðu sem er uppi núna? Stjórnsýslan eins og hún lagði sig, miðað við skýrslu Ríkisendurskoðunar, klúðraði öllum framkvæmdaskrefunum. Það er ekkert sem bendir til þess að lögin hafi verið í einhverju ólagi heldur að framkvæmd laganna hafi verið í algeru tjóni. Það er mjög einfalt. Af hverju þarf þá að breyta lögunum ef framkvæmd laganna var hvort eð er í rugli? Er það ekki framkvæmdin sem þarf að laga fyrst, alla vega að fara eftir þeim lögum sem eru þó í gildi í staðinn fyrir að kenna þeim um þegar það var ekki einu sinni farið eftir þeim? Hitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er það að hann nefndi að við værum með einhverja 300 milljarða sem við þyrftum að koma í hendur einkaaðila. Af hverju? Af hverju má ríkið ekki að eiga banka? Hvaðan kemur þessi mýta að það verði að vera annaðhvort eða, það verði að vera annaðhvort einkarekstur eða ríkisrekstur? Af hverju má það ekki vera hvort tveggja? Af hverju getur ríkið ekki sett upp þessa grunnþjónustu sem er í rauninni krafist af grunnbankastarfsemi, bara til þess að hafa í rauninni samkeppnisgrundvöll á bankamarkaði? Einkaaðilar hafa alveg sýnt að þeir fara ekkert rosalega vel með það vald sem þeir fá á fjármálamarkaði, ef við orðum það pent. Af hverju ætti ríkið ekki að vera þarna líka með ákveðna grunnþjónustu, banka sem fólk getur leitað til ef það treystir ekki einkaaðilum?