Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[18:43]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir síðara andsvarið. Fyrri spurningin laut áfram að þessum vangaveltum um það hvað sé lögfræðilegt álitaefni og hvað er að verða þess áskynja að lög hafa verið brotin. Er þingmaðurinn að fullyrða það að ríkisendurskoðandi hafi ekki uppfyllt hlutverk sitt samkvæmt lögum sem er að upplýsa um það ef hann verður þess áskynja að lög hafi verið brotin? (Gripið fram í.) Hann hefur sagt það fyrir nefndinni, hann hefur sagt það í viðtölum í fjölmiðlum. Ég ætla alla vega að bera traust til þeirra orða ríkisendurskoðanda að hann hafi ekki orðið þess áskynja að lög hafi verið brotin af hálfu ráðherra og Bankasýslunnar. Þingmaðurinn verður bara að eiga það við sjálfan sig og ríkisendurskoðanda. Hvað varðar þetta ítrekaða lögfræðilega álitaefni og slíkt þá langar mig að hvetja hv. þingmann til að hlusta á andsvar hv. þm. Hildar Sverrisdóttur áðan þegar hún svaraði hv. þm. Sigmari Guðmundssyni frekar vel um hver munurinn er þarna á, hvert hlutverk ríkisendurskoðanda væri í þessu öllu saman.

Hvað varðar framkvæmd sölunnar og að bera hana saman við önnur útboð í Evrópu þá á ég að sjálfsögðu við fjárhagslegu niðurstöðuna og þá staðreynd að við fengum gott verð fyrir hlutinn. Áhrifin á eftirmarkaði voru lítil og voru jákvæð og frávikið var með því lægsta sem við þekkjum. Það er að sjálfsögðu góð niðurstaða. (Gripið fram í.) Það er virkilega góð niðurstaða, fjárhagsleg niðurstaða fyrir ríkissjóð. Eins og ég sagði í ræðu minni þá hefði ég viljað fá meiri umfjöllun um hana af því að þá værum við ekki á svo miklum villigötum um hversu vel heppnuð þessi sala var í rauninni.