Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[18:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér niðurstöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í tengslum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. 22. mars 2022. Það fer að detta í heilt ár síðan salan átti sér stað. Ég ætla ekki að fara út í að ræða þróun verðs hlutabréfa eða neitt á þeim nótunum en ég held að það sé nauðsynlegt að reyna að ná aðeins utan um stóru myndina. Í mörgum ræðum hér á undan er búið að fara í gegnum þau atriði sem annars vegar voru gagnrýnd og hins vegar ekki í skýrslu Ríkisendurskoðunar og síðan auðvitað það sem ýmsum þingmönnum hefur þótt skorta upp á hvað athugun varðar og að sama skapi það sem ýmsum hefur þótt ofskoðað ef svo má segja.

Stóra myndin sem blasir við okkur núna er auðvitað með hvaða hætti við ætlum okkur að reyna að höndla með þær ríkiseignir sem skynsamlegt er að selja. Ég hef áhyggjur af því að sú staða sem kom upp í kjölfar þessarar sölu í mars fyrir rétt tæpu ári síðan orsaki að það verði erfiðara en það ætti að vera, skynsamlegt er, að selja eignarhluti hins opinbera í fyrirtækjum þar sem ríkið stendur í dag í samkeppnisrekstri sem að mínu mati er engum til gagns.

Ætli ríkissjóður eigi ekki að verðmætum rétt 300 milljarða í eignarhlutum í þeim tveimur bönkum sem hann heldur enn á eignarhlut sínum í; annars vegar Íslandsbanki og hins vegar Landsbankinn. Ég hef gagnrýnt nokkrum sinnum í ræðum t.d. þá tilhneigingu sem virðist vera hjá Íslandsbanka að sinna hugðarefnum æðstu stjórnenda, ýmiss konar „woke“-málum eins og það er stundum kallað. Ég held að slíkt yrði aldrei liðið þar sem væri eftirlit og passað upp á að vel væri farið með fjármuni en einhvern veginn þrífst þetta í skjóli þess að þarna er verið að passa upp á annarra manna peninga sem eru einhvern veginn verndaðir með þessum armslengdarsjónarmiðum sem sífellt er talað um hér í þingsal og við þekkjum til hvers eru ætluð. Á sama tíma hlýtur það að draga fram myndina: Bíddu, af hverju vill ríkisstjórn hvers tíma halda á þessum risavöxnu eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum þegar það er ekki ætlunin að ná fram neinum markmiðum með því eignarhaldi? Það er engin sérstök eigendastefna fyrir bankana, það er bara almenn eigendastefna gagnvart opinberum fyrirtækjum. Bankasýslan hefur það hlutverk að höndla með þetta og á sama tíma erum við hér að tosast á um 10 milljónir hér og 100 milljónir þar í mikilvæg innviðaverkefni.

Ég held að mesti skaðinn af áhrifum sem urðu af sölunni fyrir tæpu ári síðan sé hversu hætt er við að treglega gangi að losa um óþarfa eignarhald ríkissjóðs á félögum eins og bönkunum tveimur; eftirstæðum hlut í Íslandsbanka og hlut ríkisins í Landsbankanum. Auðvitað gæti ég tekið útúrdúr hérna og minnt á stefnu Miðflokksins varðandi það að afhenda eftirstöðvar á hlut í Íslandsbanka til íslenskra ríkisborgara. (Gripið fram í.)Hv. þm. Brynjar Níelsson, það kom eitthvað óhljóð þarna úr salnum en ég gef mér að hv. þingmaður útskýri hvað olli því. Ég ætla nú bara að taka þennan útúrdúr úr því að hv. þingmaður brást svona við. Auðvitað er endanlegur eigandi þessara hluta Íslendingar allir, við sem komum að því að halda uppi ríkissjóði og forma þetta ríki sem hér er. Ég held að það væri skynsamlegt margra hluta vegna að þessum eftirstæða hlut yrði deilt út til Íslendinga allra í réttu hlutfalli. Þar með yrði auðvitað til samdægurs langfjölmennasta hlutafélag landsins hvað eignarhald varðar. Allir Íslendingar væru orðnir hagaðilar hvað það varðar að hlutabréfamarkaðurinn, og sérstaklega gengi Íslandsbanka, þróaðist með hagfelldum hætti. Aðrir gætu selt og keypt sér ferð til Tene eftir atvikum. Hver velur það fyrir sig.

En aftur að efninu. Það eru þessir eignarhlutir sem ríkissjóður á í bönkunum, Íslandsbanka og Landsbanka, sem ég held að sé ekki verið að fara sérstaklega vel með þessi misserin. Ef við göngum út frá því að talan sé rétt um 300 milljarðar í dag held ég að hægt væri að ná gríðarlegum árangri í, eftir því sem haganlegast er, innviðauppbyggingu, niðurgreiðslu skulda eða öðrum þeim þáttum sem aðkallandi eru hverju sinni. Og bara til að setja þetta í samhengi þá er þetta drjúgur hluti þess halla sem núverandi ríkisstjórn hefur safnað upp á stuttum tíma. Hann er áætlaður 119 milljarðar á því ári sem nú er að líða og það verða eflaust hærri tölur þegar á reynir miðað við hvernig gangurinn er. Ríkissjóður er ekki góður eigandi að hlutabréfum sem þessum. Ég held að við þurfum hér í þinginu að finna leið að því marki að koma losun þessa eignarhlutar aftur af stað, hvort sem það verður gert samkvæmt hugmyndum okkar í Miðflokknum þess efnis að eftirstæður hlutur verði afhentur Íslendingum í jöfnum hlutföllum eða hvort það verður gert með sölu hlutarins, því að nú auðvitað er fyrirtækið á markaði og verðmyndunin með þeim hætti sem þar er, eða hvort einhver millileið verður farin og hlutur afhentur og hlutur seldur. Mér er í raun alveg sama nákvæmlega hver útfærslan verður en ég held að núverandi staða sé ekki góð.

Þetta opnar auðvitað vangaveltur. Nú er ég búinn að segja að ég telji ekki fara vel á því að ríkissjóður sé með bundna 300 milljarða í bönkum til framtíðar. Þá er eiginlega ekki hægt annað en að nefna það sem hefur verið mikið í umræðunni hér undanfarnar vikur og mánuði og í rauninni ár, þ.e. meðferð á þeim stöðugleikaframlögum sem féllu í skaut ríkissjóðs eftir að stöðugleikasamningarnir voru gerðir við kröfuhafana í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar á árunum 2013 og 2016. Samningarnir voru gerðir á árinu 2015, ef ég man það rétt. Við verðum vitni að því núna að í fyrsta lagi virðast leyndardómar Lindarhvols vera þeirrar gerðar að ekki er hægt að birta hin ýmsu plögg sem unnin hafa verið í tengslum við það mál af fyrrum settum ríkisendurskoðanda. Nú er málarekstur í héraðsdómi þar sem efnisatriði þess minnisblaðs sem þingheimur hefur ekki fengið að sjá eru að fljóta upp svona jafnt og þétt. Ég held að það væri margra hluta vegna, bara til að hreinsa loftið, skynsamlegt að birta þau gögn sem er búið að kalla eftir árum saman. Þessi tilfinning fyrir vondri meðferð á ríkiseigum grasserar auðvitað þegar jafn sjálfsagður hlutur og sá að birta greinargerð setts ríkisendurskoðanda hvað Lindarhvol varðar er hafnað jafn ítrekað og raunin hefur verið, þrátt fyrir að settur ríkisendurskoðandi þess tíma hafi lýst því yfir að honum þyki fráleitt að gagnið sé ekki birt og það valdi þeim einstaklingi raunverulega vandræðum hvað það varðar að bera hönd fyrir höfuð sér þegar sá embættismaður fyrrverandi er gagnrýndur fyrir hluti sem þar koma fram. Jafn undarlegt og það kann að hljóma þá er gagnrýni á það plagg í síðari tíma skýrslu Ríkisendurskoðunar um sama mál sem gerir settum ríkisendurskoðanda auðvitað mjög torvelt að bera hönd fyrir höfuð sér. Það sem hefur komið upp, bara af fréttaflutningi frá aðalmeðferð, ber að þeim brunni að það sé miklu frekar gagnrýnivert eitt og annað sem þar hefur átt sér stað heldur en það sem gekk á við sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka 28. mars 2022.

Í því ljósi finnst mér að við þurfum að skoða þetta heildstætt. Hvernig hefur okkur tekist til að höndla með þau verðmæti sem eru á núvirði í heildina ábyggilega farin að nálgast 1.000 milljarða, sem komu út úr stöðugleikaframlögum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar dró í hús árið 2015? Hvernig hefur tekist að vinna úr þeim verðmætum og hvar hefur okkur helst mistekist? Það sem komið hefur í ljós í aðalmeðferð þess máls, sem nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að ég held, bendir til að að nokkru marki hafi verið viðhaft nokkurt sleifarlag í þeim efnum. Ég held að margra hluta vegna væri til bóta að við tækjum eitt skref til baka, reyndum að greina þetta heildstætt og komast þá á þann stað að við getum losað þessa eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri, bönkum, upp á 300 milljarða, sem ríkisstjórn ætlar ekki að nýta sér til að hafa áhrif á það hvernig fjármálamarkaðurinn þróast. Það er alveg furðuleg afstaða að ætla að halda á eignarhlut upp á 300 milljarða og ætla ekki að nýta hann í því samhengi að koma fram einhverri stefnu eða áhrifum eða pólitískum markmiðum. Þá er miklu betra að selja undirliggjandi hluti og ráðstafa fjármununum eftir því sem best telst, hvort sem það er til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs eða innviðauppbyggingar eða hvað það kann nú að vera.

Ég bara skil þetta eftir hérna. Við skulum reyna að stíga eitt skref til baka og ná utan um heildarmyndina. Ég held að hvað fjárhagslega hlutann varðar þá hafi þessi sala í mars árið 2022 verið miklu betri heldur en salan sem fór fram á Íslandsbankabréfunum ári fyrr. Ég held að það tóni við afstöðu Bankasýslunnar hvað það varðar að seinni salan hafi gengið betur fjárhagslega og þá er ég ekki að fara að ræða þau tæknilegu atriði, og efnisatriði svo sem líka, sem svo mikið hafa verið gagnrýnd.

Á endanum verðum við að fara vel með þessar ríkiseignir sem eru í dag og voru dregnar í bú á árinu 2015. Það er margt þessar vikurnar sem bendir til þess að misbrestur hafi orðið þar á. Það er ekki sérstaklega, að mínu mati, í tengslum við söluna á Íslandsbankahlutnum fyrir ári síðan heldur er margt annað sem kemur þar til skoðunar.