153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hækkun verðbólgu.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Spádómsgáfur Flokks fólksins varðandi verðbólgu ríða ekki við einteyming. Við byrjuðum að spá fyrir því að verðbólgan færi úr böndum, eini flokkurinn á þingi, fyrir þremur árum síðan. Þann 20. mars fór ég í fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra, þá var verðbólga 2,1%. Ég fór aftur 30. apríl, þá var hún 2,2%. Ég fór aftur 7. maí 2020, þá var hún 2,6%. Aftur 11. mars 2021, þá var hún 4,3%. Og hverju svaraði fjármálaráðherra á þessum tíma? Hann hafði engar áhyggjur af verðbólgunni. Þeir hefðu fullt af ráðum til að takast á við hana og hefðu ekkert með það að gera að hafa áhyggjur af því. Hver er staðan í dag? Jú, verðbólgan er komin á flug. Á hverjum bitnar það mest? Fátækasta fólkinu. Við erum núna með fátækt fólk sem er að leigja á okurverði hreysi sem eru ekki einu sinni mannabústaðir, varla fyrir skepnur, borga stökkbreytta leigu.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hefði ekki verið nær að hlusta á okkur í Flokki fólksins frekar en að stinga höfðinu í sandinn og segjast engar áhyggjur hafa af þessu og gera ekki neitt? Finnst honum eðlilegt að hægt sé að senda ungu fólki, sem trúði því statt og stöðugt, þegar bæði hann og seðlabankastjóri sögðu að það væri komin lágvaxtastaða á Íslandi, að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af vaxtahækkunum og öðru — nú á að senda því 1–3 milljónir í aukakostnað ári. Hvað myndi honum finnast um það að settur yrði 3 millj. kr. reikningur inn á heimabankann hans sem hann þyrfti að borga, sem væru bara aukavextir ár aftur í tímann?