153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hækkandi vextir á húsnæðislánum.

[15:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Sumir ráðherrar eru bara vinsælli en aðrir suma daga. Við sem ólumst upp í óðaverðbólgu vitum hvað það þýðir fyrir fjölskyldur, heimili og fyrirtæki í landinu og við höfum engan áhuga á samfélagi sem einkennist af slíkri hagstjórn. Nú er, eins og margoft hefur komið fram í þessum fyrirspurnatíma, komin tveggja stafa verðbólgutala á Íslandi sem virðist koma ýmsum, jafnvel ráðherrum í ríkisstjórn, á óvart. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur farið mikinn í þessum fyrirspurnatíma. Hann er góður í að benda á blórabögglana. Í gær var það, held ég, framúrkeyrsla ríkisstofnana. Oftast nær er það stjórnarandstaðan en samt felldi þessi sami ráðherra allar afkomubætandi tillögur stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir yfirstandandi ár, en látum það nú liggja milli hluta núna.

Einstaklingar og fjölskyldur á leigumarkaði kalla eftir aðgerðum. Afborganir íbúðalána, sérstaklega hjá þeim sem hafa keypt nýverið, á síðustu árum, og eru jafnvel með frysta vexti sem síðan munu hækka á þessu eða næsta ári, eru að rjúka upp eins og dæmin sanna. Heimili þessa fólks eru í mjög erfiðri stöðu, þeirra sem eru á leigumarkaði og þeirra sem eru með ný lán. Ég ætla að leyfa mér að einbeita mér að þessum tveimur hópum núna. Það er þannig að ríkisstjórnin getur ekki firrt sig ábyrgð. Alls staðar í nágrannalöndum okkar er verið að grípa til mótvægisaðgerða til að koma til móts við fólk sem er í þessari stöðu. Það verður að vera þannig og ef við ætlum að standa undir nafni sem velferðarríki og beita einhverri sanngirni þá verður hæstv. fjármálaráðherra að mæta kröfum þessara hópa.