153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

svör við fyrirspurnum.

[15:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég sé að hæstv. innviðaráðherra er hér í salnum. Ég var með einfalda fyrirspurn síðan 24. nóvember og það hefur ekki einu sinni verið beðið um frest vegna hennar. Hún var um hvort það væri hægt að nota rafræn ökuskírteini erlendis vegna þess að fólk hefur rekið sig á, með miklum kostnaði, að það er ekki hægt. Það er ekki flókin fyrirspurn en einhvern veginn hefur ekki verið hægt að svara henni í þrjá mánuði. Svo er ég með aðra fyrirspurn til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Hann bað um frest 9. desember og henni er enn ósvarað. Ég vona að hann fari að bretta upp ermarnar og svara svona einföldum fyrirspurnum.