Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni tækifærið til að fá að ræða þetta mikilvæga mál hér. Ég held að við séum öll sammála um að við verðum að nýta auðlindir þjóðarinnar og þá á þjóðin að fá hlutdeild í því á einn eða annan hátt. En það sem umræðan kannski snýst um í auðlindanýtingunni er: Hvað er arður? Hvernig fær þjóðin arð eða einhvers konar hlutdeild fyrir nýtingu auðlindanna? Auðlindagjald er þá kannski svolítið einföld framsetning á því að segja: Jú, við eigum þetta og það er eðlilegt að við fáum beinar tekjur af þessu.

En þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé þá að hugsa um að þetta séu aðaltekjur þjóðarinnar gegnum auðlindagjaldið eða sér hann fyrir sér að það séu framlög til sveitarfélaga, heima í héraði, og annað slíkt ofan á þetta auðlindagjald?