Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það fór auðvitað svo að löglærður maðurinn myndi höggva í orðalagið „meginregla“ og er það bara ágætt. Ég ætla að svara því þannig til, sem er nú uppleggið en mætti e.t.v. skýra það örlítið betur vegna þess að maður þarf að vanda mál sitt þegar maður skrifar texta, að útgangspunkturinn í þessari setningu hjá okkur flutningsmönnunum er sá að það eigi með réttu að vera meginregla að þetta snúist um sameign, að það sé uppleggið, ekki endilega að sú meginregla sé til.

Varðandi EFTA er þar auðvitað verið að vísa til ákveðins máls sem við flutningsmenn bendum á í greinargerð, að megi horfa til í vinnu við þetta, enda kveður tillagan á um það að það verði tryggt, þ.e. í boðaðri lagasetningu, að það verði innheimt auðlindagjald og það sé þessi þá téða meginregla, ekki endilega að við séum að fullyrða eitt eða annað varðandi vindinn sérstaklega.