Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég byrji bara þar sem hv. þingmaður endaði þá held ég að það sé hægt, já. Við erum með með löggjöf og við erum með landsskipulagsstefnu og rammaáætlun og annað slíkt þar sem er hægt að tryggja þetta. Ég vil líka minna á að það þýðir ekki alltaf að tala bara um alþjóðaskuldbindingar varðandi afmarkað efni, við þurfum að taka allar alþjóðaskuldbindingar og segja: Hvernig náum við að uppfylla þær sem flestar sem best? Við getum ekki uppfyllt eina og verið þá að brjóta hina. Það þarf að vera mikið samspil þar. Við getum ekki gengið lengra þegar okkur hentar í að skilgreina hvað eru víðerni hjá okkur sem er svo ekki það sama og víðerni annars staðar og annað slíkt. Þannig að þetta þarf allt að spila saman.

Við þurfum líka að ákveða hvaða möguleika við höfum sem þjóð til að tryggja okkar velferð. Ég þykist nú vita að þjóðirnar þurfa að taka tillit hver til annarrar en við þurfum líka að passa upp á okkar hagsmuni því að enginn annar er að fara að gera það. Það er nokkuð ljóst. Við þurfum að hafa það í huga líka.

Varðandi fyrri spurninguna þá er ég bara sammála um mikilvægi grunnrannsókna. Grunnrannsóknir eru gríðarlega mikilvægar. Við teljum kannski núna að ýmislegt, eins og orkuöflun, sé ein af stóru auðlindum þjóðarinnar en því fleiri grunnrannsóknir sem við höfum í sem fjölbreyttustu geirum, því fleiri auðlindir getum við uppgötvað, því fleiri atvinnutækifæri getum við uppgötvað. Því meira sem við erum búin að kortleggja, hvort sem það er landið eða annað, og gera grunnrannsóknir, því betur gengur okkur að gera áætlanir, því betur gengur okkur að veita leyfi fyrir atvinnustarfsemi og annað slíkt.