153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

úrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda.

[15:48]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og staðan er í dag hafa einstaklingar með fötlun ekki aðgang að meðferðarúrræðum við fíknivanda, hvort sem það er áfengisvandi, fíkniefnavandi eða spilafíkn. Samtök og aðstandendur fatlaðra með fíknivanda hafa kallað eftir viðeigandi meðferðarúrræðum og þá sérhæfðum úrræðum. Fíknivandi hér á landi hefur aukist verulega síðustu árin og sá vandi er líka til staðar hjá fólki með fötlun en fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu er oft berskjaldaðri fyrir fíkn eins og áfengis- og spilafíkn. Á Vogi eru innlagnir vel yfir 2.000 á ári og er vandi hvers og eins mismunandi en fíknivandinn er sameiginlegur. Því miður er staðan sú árið 2023 að fólk með fötlun hefur ekki í nein úrræði að leita. Þess í stað leggst aukið álag á aðstandendur þeirra og þá sem sinna búsetukjörnum fyrir fatlað fólk. Það er ljóst að almenn úrræði henta ekki fólki með þroskahömlun, einhverfu eða fólki með tvíþættan vanda. Fíknisjúkdómurinn er margþættur sjúkdómur og því þarf að vinna út frá því í samvinnu við fagfólk.

Árið 2017 var samþykkt þingsályktunartillaga hér á Alþingi um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og var gert ráð fyrir því að finna mætti fyrir henni í fjárlagagerð næstu ára. Í framkvæmdaáætlun segir m.a. að komið verði á sérhæfðu meðferðarúrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda með það að markmiði að fatlað fólk með fíknivanda eigi völ á sérhæfðum úrræðum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er staðan á því að komið verði á fót sérhæfðu meðferðarúrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda?