Bráðabirgðaútgáfa.
153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

767. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir nánast akkúrat ári síðan stóðum við hæstv. innviðaráðherra hér og ræddum sömu fyrirspurn mína um stöðu framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmálans, sáttmálans um það sem áttu að vera umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu. Síðan við hæstv. ráðherra stóðum hér síðast hafa tvær grímur runnið á fleiri en mig. Þannig hafa bæjarstjórar í nágrannasveitarfélögunum m.a. spurt gagnrýninna spurninga um framgang verkefna og útfærslu þeirra. Því spyr ég hæstv. ráðherra aftur út í snjallvæðingu umferðarljósa og aðrar nýjar tæknilausnir í Reykjavík, út í gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, út í lagningu Arnarnesvegar og gatnamót við Breiðholtsbraut, út í uppbyggingu í Keldnalandi og út í betrumbætur á leiðarkerfi Strætó.

Þessi atriði sem ég spyr hæstv. ráðherra aftur út í eru forgangsmál samkvæmt samgöngusáttmálanum. Samkvæmt honum átti að ráðast í þessar aðgerðir þegar í stað og þeim átti sumum hverjum að vera lokið, meira að segja áður en við ræddum hér saman síðast. Ég bíð spennt eftir svörum hæstv. ráðherra en hann veit auðvitað eins og ég að þetta eru málamyndaspurningar. Ég er þingmaður Reykvíkinga og ég bý í Reykjavík, nánar tiltekið austurhlutanum. Ég nota samgöngukerfi borgarinnar daglega. Ég veit auðvitað hvað hefur gerst í þessum efnum frá undirritun — sáralítið. Og það sem þó hefur verið gert er í engu samræmi við framkvæmdaáætlun sáttmálans.