Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 73. fundur,  6. mars 2023.

lækkun tolla og gjalda á innfluttar matvörur.

187. mál
[19:07]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn fyrirspyrjandanum og ekki síður þeim þingmönnum sem hér hafa tekið þátt. Ég ætla að reyna aðeins að snerta á þeim athugasemdum og vangaveltum sem hér hafa komið upp.

Í fyrsta lagi langar mig vegna orða hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar að nefna það hversu mikilvægt það er í sterku velferðarsamfélagi að hollur matur sé aðgengilegur fyrir efnalítið fólk. Það sem gleymist oft í umræðu um fæðuöryggi, þegar við erum fyrst og fremst að tala um að það sé nóg til handa öllum, er: Nóg til af hverju og handa hverjum? Takk fyrir þá ábendingu af því að hún er mjög mikilvæg.

Hv. þm. Ingibjörg Isaksen spurði sérstaklega um aðbúnað og mismunandi aðstæður bænda til þess að vera í samkeppni við bændur annars staðar og vísaði þá sérstaklega til aðbúnaðar. Mér finnst mikilvægt og ég tel að það sé rétt að taka þessari áskorun sem hér kemur fram til að búa til starfshóp og skoða það bara einfaldlega hvort munur sé á þessu. Það er mikið talað um það og því er oft haldið fram að það sé mikill munur á því hvernig aðbúnaðarkröfur séu eftir löndum. Ég held að við eigum bara að fara í saumana á því. Það eru sannarlega ýmis atriði sem eru öðruvísi. Við vitum að íslenskar byggingar eru tiltölulega dýrar og við vitum að það eru miklar kröfur í byggingarreglugerðum varðandi hús í landbúnaði o.s.frv.

Mig langar loks á seinni sekúndunum aðeins að nefna umræðuna um þátttöku innlendra framleiðenda á tollkvótum. Það er ekki til að einfalda umræðu um tollvernd að þau fyrirtæki sem starfa í skjóli tollverndar séu þátttakendur í slíku, bara svo að það sé sagt. Ég veit að mitt ráðuneyti hefur verið að skoða þetta sérstaklega, að kanna nýtingu á tollkvóta. Samkeppniseftirlitið hefur líka haft þessi mál til skoðunar. Ég legg mikla áherslu á að þetta sé skoðað, að það sé ekki verið að nýta þarna í raun og veru, hvað á maður að segja, takmörkuð verðmæti til annars heldur en stefnt var að í greininni.