Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

118. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu sem ég styð heils hugar. Það er svo sannarlega tímabært að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana og einfalda umsóknarferlið. Það tel ég að sé afar mikilvægt. Ég er sammála því sem kemur fram í þessari tillögu og kemur fram í greinargerðinni um að smávirkjanir séu nauðsynlegar. Þær eru svo sannarlega nauðsynlegar og eiga sér náttúrlega mjög merka sögu hér á Íslandi, eins og t.d. í Skaftárhreppi þar sem voru miklir frumkvöðlar á þessu sviði. Að sjálfsögðu skiptir þetta máli hvað varðar varaafl, eins og kom fram, og auk þess er þetta byggðasjónarmið. Hér er á ferðinni góð tillaga sem ég vona að fái framgang hér í þinginu. Almennt séð þurfum við náttúrlega að auka raforkuframleiðsluna í landinu. Bara til að mæta markmiðum okkar í loftslagsmálum þá skilst mér að það þurfi að auka framleiðslu í landinu um allt að 3.000 mW sem er gríðarlega mikið. Þessar smávirkjanir eru að sjálfsögðu umhverfisvænar og eru lítið skref í þá átt að gera okkur minna háð þeim, eigum við að segja bara eldsneytisgjöfum sem við erum að nota í dag þegar kemur t.d. að rafmagnsbílunum. Þetta er umhverfisvænn orkumáti, svo sannarlega.

En mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort í þessu sambandi hafi verið skoðaðar t.d. sólarorkustöðvar sem hægt er að koma upp með tiltölulega einfaldri leið, hvort það hafi verið skoðað að þeir sem setja upp þann búnað myndu t.d. geta selt rafmagn á netið, hvort hv. þingmaður þekki hvernig regluverkinu er háttað í kringum það. Ég tel að það sé áhugavert fyrir þá sem vilja taka þátt í þessu verkefni okkar að stuðla að umhverfisvænum orkugjöfum í landinu. Við eigum náttúrlega margar og góðar auðlindir í þessum efnum. Þar er auk þess hægt að nýta sólarorkuna. Ef hv. þingmaður gæti kannski aðeins komið inn á það hvort hún þekki eitthvað til í þessum efnum. Síðan (Forseti hringir.) — ég sé að klukkan er nú eitthvað í ólagi þannig að best er að ég komi inn á annað mál hér í síðara andsvari.

(Forseti (LínS): Forseti vill geta þess að klukkan er ekki í ólagi heldur gleymdi forseti sér, enda var hv. þingmaður kominn verulega fram úr sínum ræðutíma.)