Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga.

119. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Með mér á málinu eru hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Ágúst Bjarni Garðarsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Þingsályktunartillagan var áður lögð fram á 151. löggjafarþingi af Silju Dögg Gunnarsdóttur, þáverandi þingmanni Framsóknar, og var svo endurflutt á 152. löggjafarþingi af þeirri sem hér stendur með nokkrum breytingum, en er nú endurflutt nær óbreytt síðan þá.

Tillagan felur í sér að Alþingi feli matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:

1. Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.

2. Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.

3. Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.

Í tillögunni sem er lögð hér fram kemur fram að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum Alþingis eigi síðar en 1. mars 2023. Sú dagsetning er liðin. Við þurfum náttúrlega að veita lengri frest þá. Þó að mál séu snemmkomin inn á haustþingi getur á þinghaldi hægt af ýmsum ástæðum.

Vaxandi markaður er fyrir þörunga og afurðir þeirra í heiminum en villtir þörungar eru takmörkuð auðlind. Þetta eru oft og tíðum mjög dýrar vörur og skapa því mikil verðmæti. Hér á landi eru, eins og við vitum öll, kjöraðstæður fyrir bæði öflun og ræktun þörunga úr sjó ásamt ræktun á landi. Löggjöfin sem við styðjumst enn við er annars vegar lög um fiskeldi, sem nær þá utan um ræktun þörunga á landi, eða alla vega að einhverju leyti. Svo erum við með nýleg lög sem fjalla um nýtingu sjávargróðurs. Mikilvægt er að gera grein fyrir hvernig lög og reglur styðja við sjálfbæra nýtingu á þörungum og hvort lögin nái yfir það verkefni sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að vexti og nýtingu á þörungum. Með úttekt á lögunum má vinna áfram að því að bæta lagarammann greininni til heilla og okkur öllum. Þá er einnig mikilvægt að kanna af fullri alvöru hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra, sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim. Þá þekkjum við úr umræðunni úr laxeldinu mikilvægi þess að styrkja eftirlitsaðila og eftirlitsstofnanir ríkisins og við þurfum að búa yfir nægri sérþekkingu um greinina. Þá er mikilvægt að nýting þörunga sé gerð með sjálfbærum hætti og að stundaðar verði rannsóknir sem hafi það að markmiði að hafa eftirlit með áhrifum á öflun þörunga á lífríkið. Aðeins þannig getum við staðið vörð um náttúruna. Þetta er mjög mikilvægt því að þegar við ætlum að ganga á þessa auðlind þarf að huga að því hvernig við getum þá styrkt hana og skilað henni aftur inn í framtíðina.

Á dögunum var kynnt skýrsla alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Var þar komið inn á þörungaeldi og tækifæri og áskoranir í þörungaeldi á Íslandi. Í skýrslunni segir að þörungarækt í heiminum hafi færst í vöxt til að mæta aukinni eftirspurn og bæta framleiðslustýringu. Er þar fjallað um hvernig skipta megi þörungaeldi í tvær talsvert ólíkar undirgreinar, smá- og stórþörungaframleiðslu og ólíkar aðferðir eru notaðar við ræktun, uppskeru og vinnslu. Áætlaður er verulegur vöxtur í smáþörungaeldi og nýtingu þörunga úr sjó. Hér erum við að tala um grein sem getur skilað af sér mörgum milljörðum í þjóðarbúið. Nú standa yfir tilraunir með ræktun á stórþörungum í sjó en í skýrslunni kemur fram að vöntun sé á sértækum reglum og stendur það vexti greinarinnar fyrir þrifum. Þá segir jafnframt í skýrslunni að þrátt fyrir skort á sértækum reglum bendi nýlegar fjárfestingar til þess að aðilar á markaði búist við vexti í framleiðslu stórþörunga. Íslandsþari hefur fjárfest fyrir 13,5 milljónir evra í þangvinnslustöð fyrir stórþara á Húsavík og stórtæk áform eru um þangvinnslu í Stykkishólmi. Einnig hefur verið fjárfest í þangvinnslu og þurrkunaraðstöð á Reykhólum við Breiðafjörð þar sem notast er við jarðhita.

Með leyfi forseta vil ég lesa upp samantekt úr skýrslunni varðandi þörungaeldi á Íslandi en þar segir:

„Ísland getur stutt við þörungaeldi með því að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa sett stefnur og reglur til að ýta undir sjálfbæran vöxt greinarinnar. Sértækt regluverk um smáþörungaframleiðslu á Íslandi er ekki til en vöntun á því mun sennilega ekki hamla vexti verulega. Krafa um skráningu á framleiðslumagni, tegundum og tengdum framleiðsluferlum, gæti hins vegar nýst stjórnvöldum til að styðja betur við greinina og auðvelda nýjum aðilum að taka sín fyrstu skref. Að auki gæti aukinn fyrirsjáanleiki varðandi aðgengi að helstu aðföngum (vatni og orku) stuðlað að frekari vexti greinarinnar.

Sérstök löggjöf um stórþörungaræktun á Íslandi er ekki til og hefur það staðið í vegi fyrir vexti í greininni. Hægt væri að læra af reynslu Norðmanna, Færeyinga, Dana og Skota og þeim aðgerðum sem þar hafa verið innleiddar til að styðja við vöxt. Aðgerðir eins og að gefa stórþörungaeldi gaum í stefnumótun, veiting tímabundinna þróunarleyfa, setja gildistíma rekstrarleyfa til nægilega langs tíma og gerð skýrs reglu- og leyfisveitingakerfis fyrir sjálfbæra stórþörungaframleiðslu hafa allar skilað árangri. Fyrsta skrefið gæti verið að koma á þróunarleyfum, líkt og gert hefur verið með góðum árangri í Færeyjum og Noregi. Samhliða þróunarleyfum er hægt að stunda rannsóknir sem kanna umhverfisáhrif og vinna að langtímaregluverki eins og í Noregi. Stefnumótun líkt og í Skotlandi myndi einnig skapa fyrirsjáanleika fyrir frumkvöðla og fjárfesta. Enn fremur, í ljósi þess að stórþörungaeldi er ung grein felst ávinningur í því að verðleggja leyfi og eftirlitskostnað þannig að hann hvetji til fjárfestingar og frumkvöðlastarfsemi. Verð á leyfum gæti einnig tekið mið af hugsanlegum umhverfisávinningi þ.e. möguleikum stórþörungaeldis til að minnka umhverfisáhrif fiskeldis og/eða kolefnisbindingu.“

Við höfum greinilega mörg og góð tækifæri ef við einbeitum okkur að því hvernig við getum tryggt aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og hann fer vaxandi. Við vitum að þjóðir í Asíu hafa lengi stundað umfangsmikla framleiðslu á þörungum og svæði í Norður-Ameríku eru komin með dágóða reynslu. Hollendingar eru nokkuð framarlega á þessu sviði, bæði varðandi smáþörunga og ræktun þangs á strengjum. Þjóðir nær og fjær eru komnar vel áleiðis og engin ástæða fyrir okkur að dragast aftur úr.

Virðulegi forseti. Hér á landi eru ýmis fyrirtæki komin af stað í þessum málum. Ber þar helst að nefna Reykhóla þar sem þangs hefur verið aflað við Breiðafjörð. Sú framleiðsla hefur skipt sköpum fyrir það byggðarlag. Þetta er því ekki síður byggðamál ef við sjáum þarna tækifæri til vaxtar vítt og breitt um landið. Ég læt þetta duga og vonast til að fá góða umræðu í atvinnuveganefnd sem þetta fer væntanlega til, virðulegi forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða fyrir íslenska þjóð til framtíðar. Ég legg til að málinu verði því vísað til atvinnuveganefndar.