Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga.

119. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er nú þannig, eins og kemur hér fram, að þessi nýsköpun og þessi fyrirtækjarekstur þegar kemur að nýtingu þörunga er að stórum hluta á byrjunarstigi. Þó svo að við þekkjum náttúrlega mörg hver þörungaverksmiðjuna á Reykhólum finnst mér mjög áhugaverður vinkill á þessu öllu saman að reyna að virkja t.d. bara þá bændur sem búa á sjávarjörðum og hafa aðstöðu til að að nýta þörunga, að við mundum reyna að styðja við bakið á svona litlum nýsköpunarfyrirtækjum þannig að þá verði auðvelt aðgengi að rannsóknarstyrkjum. Það tel ég vera mjög mikilvægt vegna þess að þetta er, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, mjög vaxandi grein og mikil hollustuvara sem er hér um að ræða. Við Íslendingar eigum mikla auðlind í okkar þörungum. Það kemur t.d. fram í greinargerðinni að að mati Hafrannsóknastofnunar sé árleg frumframleiðsla plöntusvifs innan 200 mílna lögsögu Íslands um einn milljarður tonna. Þetta er gríðarlegt magn og þarna liggja náttúrlega heilmikil tækifæri. Við eigum að styðja við bakið á frumkvöðlum hvað þetta varðar. Þar eru náttúrlega rannsóknarstyrkirnir til nýsköpunar afar mikilvægir. Ég vildi bara ljúka þessu á þeim nótum að hvetja hv. þingmann, sem greinilega hefur mikinn áhuga á þessum málum, að beita sér fyrir því að rannsóknarstyrkirnir verði aðgengilegir.