Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja fram þetta mál. Þetta er mjög mikilvægt mál inn í einmitt það umhverfi sem við erum í núna. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð, við erum jafnréttissinnuð, framfarasinnuð, það er gott að búa hér og það er gott að vera einstaklingur hér. En við getum ekki neitað því sem hæstv. forsætisráðherra — og ég vil þakka henni fyrir skilaboð hennar úti í Bandaríkjunum á þingi Sameinuðu þjóðanna, kvennaþinginu þar um að það hefur orðið bakslag, ekki bara í heiminum í þessari harðdrægu orðræðu sem er víða, og það er áhyggjuefni að sjá til að mynda öfga hægri hópa ná svolitlum undirtökum í lýðræðislegum Evrópuríkjum af því að við vitum alveg hvaða eitur getur komið þaðan, en þetta er líka hérna heima.

Mér finnst ofboðslega sárt að hafa upplifað frásagnir ungs fólks, hinsegin fólks. Við héldum, við sem erum hér inni, að við værum búin að skapa þannig heim að frelsið væri þeirra, frelsið væri okkar allra og þau væru óhult að koma á viðkvæmum tíma í sínu lífi út úr skápnum. Alla vega er mín tilfinning einhvern veginn sú eftir að hafa horft á og lesið þessar frásagnir að það sé ekki þannig. Þess vegna er alveg ótrúlega dýrmætt þegar forsætisráðherra, og ákveðin fyrirmynd margra líka, stígur fram með þetta ákveðnum hætti. Við getum alveg haft áherslumun í þessum málum en það er þýðingarmikið þegar forystufólk í ríkisstjórn eða stjórnmálum stígur fram og segir: Hingað og ekki lengra, við ætlum að taka á þessu. Við ætlum að fara yfir þetta og við ætlum að taka á þessu.

Þá kemur að spurningunni hjá mér í fyrri umferð varðandi hatursorðræðuna: Erum við alveg með á hreinu hvað fellur þar undir? Telur forsætisráðherra að við getum náð því fram að skerpa enn frekar á því hvað fellur undir hatursorðræðu þannig að við þurfum ekki að heyra svo miklu gubbi og ógeðslegheitum skóflað undir eitthvað sem er tjáningarfrelsið en er það í rauninni ekki þegar við sjáum alveg að þetta er í raun hatursorðræða? Ég tel mikilvægt að við förum vel yfir þetta og ég vona að þetta fái mjög faglega umræðu hér í þinginu.