153. löggjafarþing — 76. fundur,  9. mars 2023.

aðgerðir stjórnvalda gegn fátækt.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Aftur er vitnað í skýrslu Barnaheilla og ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þessi mál. Ég fór aðeins yfir nokkrar aðgerðir í fyrra svari við fyrirspurn hv. þm. Guðmunds Inga Kristinssonar. Ég vil segja það, af því að hluta til er verið að kalla eftir stefnumótun eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir bendir á, og ítreka að vegna þeirra laga og tillagna sem voru samþykktar hér á síðasta þingi þá er hafin vinna við þessa stefnumótun undir forystu hæstv. mennta- og barnamálaráðherra þar sem m.a. verður tekið tillit til efnahagslegra þátta því að sjálfsögðu hafa þeir áhrif á stöðu barna á Íslandi. Þetta snýst ekki bara um hvaða þjónusta er í boði heldur líka hina efnahagslegu stöðu. Þó að við höfum alþjóðleg gögn sem sýna að óvíða er betra að vera barn en á Íslandi þá er að sjálfsögðu hægt að gera betur. Það er hluti af því sem við höfum verið að gera og það er hluti af því sem við þurfum að halda áfram að gera. Þótt við höfum lengt fæðingarorlof, svo að dæmi sé tekið, sem er ein af þeim aðgerðum sem hefur verið bent á, þá erum við ekki búin að brúa umönnunarbilið sem er mjög þungur tími í lífi barnafjölskyldna.

Hv. þingmaður bendir líka á arðgreiðslur annars staðar í samfélaginu og ég vil að sjálfsögðu segja það hér að nú stendur líka yfir mikil vinna, undir forystu hæstv. matvælaráðherra, þar sem er verið að takast á við nákvæmlega þessar spurningar um fjárhæð veiðigjalda. Við erum að sjá gríðarlega háar arðgreiðslur sem eru umfram það sem þessi fyrirtæki eru að skila til samfélagsins í formi veiðigjalda, þó að þau greiði auðvitað aðra skatta og gjöld líka. Það er gríðarlega mikilvægt að við sjáum niðurstöður úr þessari vinnu. Ég hef fulla trú á þeirri vegferð sem hæstv. ráðherra hefur lagt upp með sem snýst um að skapa sem mesta sátt. En ég veit það líka vel að það verður aldrei full sátt um þessi mál. Krafan hlýtur að vera sú að þessi fyrirtæki, sem eru að nýta okkar sameiginlegu auðlind, (Forseti hringir.) skili sanngjörnum hluta til samfélagsins sem á auðlindina.