Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

uppbygging Suðurfjarðavegar.

230. mál
[14:24]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hér upp og nota tækifærið til að þakka hv. þingmönnum Njáli Trausta Friðbertssyni og Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir að leggja fram þessa mikilvægu þingsályktunartillögu sem gengur út á að flýta uppbyggingu Suðurfjarðavegar. Samgöngumál brenna á öllum landsmönnum hvar sem við búum en þessi þingsályktunartillaga er einmitt birtingarmynd þess að gera verður betur í þeim málum. Öflugar og góðar samgöngur ýta undir og tryggja öflugt atvinnu- og þjónustusvæði sem við tölum um hér nú og það gefur af sér gríðarlegar tekjur aftur til ríkissjóðs. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson fór vel yfir það og þá verðmætasköpun og öflugt atvinnulíf sem er þar. En ég vil ítreka enn frekar að Austurland er öflugt atvinnu- og þjónustusvæði með gríðarlega verðmætasköpun og myndar stóran hluta útflutningstekna hér á landi. Það verður því að horfa til þessarar gríðarlegu verðmætasköpunar varðandi flýtingu á uppbyggingu Suðurfjarðavegar og annarri uppbyggingu samgangna á Austurlandi sem er nú þegar á samgönguáætlun. Við hljótum því að standa vörð um svæði sem gefur svo vel af sér og gefa því svæði vel til baka. Við þurfum öflugri samgöngur á Austurlandi og að sameinast um að styðja framgang þessarar þingsályktunartillögu um mikilvæga uppbyggingu Suðurfjarðavegar.