153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

fátækt barna á Íslandi.

[15:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er í janúar árið 2016 sem ég heyri að UNICEF á Íslandi er að birta tölur um stöðu íslenskra barna hvað varðar efnahag. 9,1% íslenskra barna bjó þá við mismikinn skort. Í dag er þessi tala 13,1%. Hæstv. fjármálaráðherra getur augljóslega séð eftir alla sína reynslu í peningamálunum að þetta er ansi öflugur vöxtur, ekki satt? Þetta er yfir 40% vöxtur, ekki satt? Þannig að núna í öllu góðærinu, öllum jöfnuðinum, methagnaði arðgreiðslna og annað slíkt þá erum við líka að fara að slá met í fátækt íslenskra barna.

Virðulegi forseti. Það er engin áætlun. Það er engin stefna þessarar ríkisstjórnar um að útrýma fátækt, ekki neitt. Hæstv. fjármálaráðherra, ég spyr þig: Hvað ert þú að gera og þitt ráðuneyti? Hvað eruð þið að gera, hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn, til að slá á þessa óafsakanlegu þjóðarskömm sem vaxandi fátækt er sem við erum að horfast í augu við í dag? Ertu, hæstv. ráðherra, ánægður með þessa þróun og geturðu enn staðið hér og talið fátæku fólki trú um að það hafi það að meðaltali alveg svakalega fínt af því að allar tölur OECD slái þann taktinn?