153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

einkarekstur og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

[16:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hún er auðvitað stór í öllu samhengi þegar kemur að því að horfa til þessa kerfis okkar í heild sinni. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að við búum við öflugt heilbrigðiskerfi. Reyndar erum við að horfast í augu við, eins og heimurinn allur, gríðarlegar áskoranir þegar kemur að mönnun og fjármögnun. Við tölum gjarnan oftar um það sem miður fer en það sem vel er gert, en það er auðvitað verið að gera kraftaverk á hverjum einasta degi í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðiskerfið okkar er í grunninn fjármagnað með opinberu fé. Af því að hv. þingmaður kemur inn á gott og öflugt opinbert kerfi segi ég: Allt heilbrigðiskerfið okkar eins og það er samsett í blönduðu kerfi þarf að vera öflugt. Við þurfum að nýta fjármagnið mjög vel. En við þurfum líka að nýta mannauðinn og auka afkastagetuna í öllu kerfinu. Ég hef beitt mér fyrir því að reyna að fá þessi kerfi til að vinna betur saman. Þegar við tölum um að greiða fyrir aðgengi og gera samninga við þá sem eru sjálfstætt starfandi þá koma áhyggjur af því að sérfræðiþekking fari út úr opinbera kerfinu. Þetta jafnvægi verðum við að tryggja en það verður ekki tryggt öðruvísi en í gegnum samninga. Og til að mynda núna — og þetta eru fleiri þjóðir að gera, ég er nýbúinn að horfa inn í danska aðgerðapakkann og þar eru nákvæmlega sömu atriði. Það safnast á biðlistana í valkvæðum aðgerðum, þeim sem hv. þingmaður fór hér yfir áðan, og þá er nú farið að bíta í þann enda sem heitir jafnt aðgengi, sem er í okkar heilbrigðisstefnu. Þannig að við þurfum að nýta alla afkastagetuna í kerfinu og það er hugsunin með því að opna á aðgengi hér og nýta krafta hinna sjálfstætt starfandi sérfræðinga, m.a. í liðskiptunum, í kvennaaðgerðunum, í endómetríósu. (Forseti hringir.) Við þurfum að taka fleiri augnsteina og við þurfum að færa þetta út. En við þurfum líka að tryggja í gegnum samninga að það verði samvinna á milli þessara aðila og að ábyrgð verði tekin í báðar áttir.