153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[16:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum hættu tveir kvenkyns stjórnmálaskörungar, forsætisráðherra Nýja-Sjálands og fyrsti ráðherra Skotlands. Báðar höfðu orð á því að þetta væri sérstaklega erfitt og þrúgandi starf og ekki síst fyrir konur. Fjöldi alþjóðlegra rannsókna sýna að konur eiga erfiðara uppdráttar og nú heyrum við það í síðustu viku, þannig að eftir var tekið, að hæstv. innviðaráðherra reynir að drepa málum á dreif hjá formanni Viðreisnar með því að skamma hana fyrir að tala of hátt. Og svo gerist það aftur að hæstv. fjármálaráðherra skammar formann Flokks fólksins fyrir að tala sömuleiðis hátt. Þetta er hallærislegt. Við skulum láta af þessu og við karlkyns þingmenn verðum að minna ráðherrana okkar á þegar þeir gleyma sér og biðja þá vinsamlegast að sýna báðum kynjum tillitssemi og kurteisi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)