Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að það sé bara nauðsynlegt að halda því til haga að Ísland hefur ákveðnar sérreglur þegar kemur að þessum málaflokki og þar á meðal að halda þjónustu áfram við þá sem hafa fengið neitun og eru ólöglegir í landinu. Það er mjög mikilvægt í þessum málaflokki að samræma regluverkið við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Við tökum vel á móti þeim sem eru í sannanlegri neyð. Ég hef ákveðna skoðun gagnvart umsóknum frá Venesúela, sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, þar sem m.a. hefur nú komið fram að það er verið að auglýsa í Venesúela Ísland sem sérstaklega gott land þar sem er gott velferðarkerfi o.s.frv. Örugglega vita flestir í Venesúela það að ef þeir fá neitun hér á landi þá fá þeir áfram greiðslu úr ríkissjóði (ArnG: En þeir fá ekki neitun.) En það fær enginn neitun frá Venesúela og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, það er ein af sérreglunum sem Ísland hefur. Á meðan önnur lönd veita (Forseti hringir.) umsóknum frá Venesúela ekki viðbótarvernd (Forseti hringir.) er Ísland eina landið sem veitir viðbótarvernd. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu er það skilvirkni að skýra þessar reglur þannig að skilaboðin verði klár og þeir sem sækja hér um viti nákvæmlega að hverju þeir ganga.