Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í umfjöllun í nefndaráliti meiri hluta er varðar hinsegin fólk, að þar sé verið að veita þeim einhverja sérstaka vernd núna, leggja til einhverjar breytingar, aukna vernd fyrir hinsegin fólk á flótta. Hvort hv. þingmaður hafi rekið augun í miklar breytingar á frumvarpinu þess efnis að það sé verið að koma til móts við það að þar sé um að ræða sérstaklega viðkvæman hóp sem getur átt erfitt með að sanna sínar málsástæður svo vel sé. Þá vil ég líka spyrja hv. þingmann út í það hvort hún kannist við að átt hafi sér stað umræða í nefndinni eftir gestakomur á síðasta fundi nefndar þar sem málið var tekið út, hvort einhverjar efnislegar umræður hafi átt sér stað eftir komu gestanna þann daginn.