Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:04]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu við þetta frumvarp um lög um útlendinga, nr. 80/2016, um alþjóðlega vernd. Þar við 9. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: „Við mat skv. 2. mgr. skal ekki leggja til grundvallar efnahagsástand í heimalandi.“

Forseti. Hér er lagt til að við mat stjórnvalda á því hvort einstaklingur eigi rétt á svokallaðri viðbótarvernd þá skuli ekki líta til efnahagsástands í viðkomandi ríki. Þessi breyting er lögð fram til að leiðrétta það ástand sem hefur skapast í kjölfar þess að kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð um að veita einstaklingum sem koma frá Venesúela vernd vegna þess hve bágur efnahagur er þar í landi. Slík tilhögun fer langt fram úr bæði alþjóðlegum skuldbindingum og er ekki í samræmi við framkvæmd nágrannalanda okkar að neinu leyti.

Ég hef áður fyrir hönd Eyjólfs Ármannssonar, sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd, mælt fyrir breytingartillögu og hún var náttúrlega mun viðameiri en þessi. Staðreyndin er sú í dag að hingað koma 50 einstaklingar hvern einasta dag til að biðja okkur um vernd. Ég veit ekki eiginlega hvað það er sem hérna er verið að kalla eftir, ég hef ekki alveg áttað mig á því, en ég veit þó að í desember síðastliðnum voru mun fleiri einstaklingar sem leituðu ásjár hjá okkur frá Venesúela en hafa komið frá hinu stríðshrjáða landi Úkraínu. Í rauninni er lítið sem ég hef meira um það að segja nema að ef við ætlum að halda þessu fordæmi til streitu og ekki reyna að skrúfa fyrir þennan sírennsliskrana af fólki sem er að leita sér hjálpar vegna bágrar efnahagsstöðu þá veit ég ekki alveg hvert við stefnum. Ég veit hins vegar að nú er verið að kalla eftir 2,6 milljörðum aukalega í málaflokkinn. Það er verið að gera það nánast í þessum töluðu orðum. Ég veit að við eyðum ekki sömu krónunni tvisvar. Ég veit að það er verið að segja að það eigi ekki að etja saman þessum eða hinum vegna þess að hér getum við sjálfsagt gert allt fyrir alla. Þrátt fyrir að 13,1% íslenskra barna líði hér mismikinn skort og fátækt fari vaxandi í landinu þá flytjum við inn fátækt á sama tíma.

Virðulegi forseti. Það kostar ekkert að vera með hjarta úr gulli. Það kostar ekkert að vera í orði þannig að maður vilji gera allt fyrir alla og hingað til okkar eigi bara allir að koma. Staðreyndin er sú að við erum í sambandi, þ.e. hinn svokallaði EES-samningur um Evrópska efnahagssvæðið þar sem 516 milljónir manna geta komið til okkar og unnið hér og eru bara algjörlega með sitt frjálsa flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns. Ef við ætlum að senda þau skilaboð að við tökum á móti þessu fólki frekar en öðru fólki í heiminum, hvort sem það er frá Pakistan, Afganistan, Sómalíu eða hvar eina annars staðar sem er, þá veit ég eiginlega ekki hvar við eigum að setja bremsu. Ég átta mig ekki á því.

Þessi breytingartillaga er hér eingöngu til að reyna að setja niður fótinn og hætta að senda þau skilaboð að hér drjúpi smjör af hverju strái fyrir alla í heiminum. Við bara getum ekki staðið undir því. Það er mín bjargfasta trú.