153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þessa vikuna fögnum við því að 40 ár eru liðin frá því að Samtök um kvennalista buðu fyrst fram til Alþingis á Íslandi. Til hamingju þingheimur. Það var önnur veröld sem blasti við okkur fyrir 40 árum, veröld gamla tímans, helmingaskiptatímans, feðraveldisins, fábreytni og karlanna. Fyrir hönd Kvennalistans settust á þing Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir vorið 1983. Kvennalistinn var grasrótarhreyfing án formanns þar sem dreifstýring og verkaskipting sem aldrei áður hafði sést í íslenskri pólitík var sett á dagskrá. Málin höfðu heldur ekki verið sett á dagskrá. Það hafi aldrei í þessum sal verið talað um ofbeldið í íslensku samfélagi; kynferðisofbeldi, nauðganir, sifjaspell, heimilisofbeldi. Allt þetta setti Kvennalistinn á dagskrá. Kvenfrelsi snýst nefnilega um það að allar konur ráði líkama sínum og lífi. Það er forsenda þess að þær séu gerendur í lífi sínu. En Kvennalistinn setti líka margt annað á dagskrá, t.d. talaði um byggðakvóta þegar var verið að koma kvótakerfinu á laggirnar, talaði um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, stóð gegn uppbyggingu stóriðju, talaði um umhverfismál í fyrsta sinn, fyrsta stjórnmálahreyfingin sem bað um að hér yrði stofnað umhverfisráðuneyti, sem síðar varð árið 1990. Þær settu framar öllu öðru kröfuna um að virða störf kvenna sem að mestu voru ólaunuð en líka launuð að verðleikum, að konur væru ekki til færri fiska metnar eins og þá var stundum sagt. Kristín Halldórsdóttir heitin, sem ég ber gæfu til að geta kallað vinkonu mína, sagði að þegar þær settust á þing þá hefði það verið eins og ganga í björg feðraveldisins. Sem betur fer hefur margt breyst og ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka Samtökum um kvennalista fyrir ómetanlegt framlag til íslenskra stjórnmála. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)