153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Leikhúsið er þannig að það er býsna oft ansi opinberandi. Ég skal þá vera fíflið, því að allir sem þekkja eitthvað til leiklistarsögu vita að fíflið er sá sem sagði sannleikann, fíflið er sá sem opinberaði hráskinnaleikinn. Og það er það sem ég vil gera í dag; ég vil benda á að við erum hér stödd í einhverjum allsherjarblekkingaleik.

Varðandi hinsegin fólk þá er ótrúlegt að við erum hér að tala um fólk á flótta og stjórnarliðar fara að skreyta sig með einhverju sem varðar kvótaflóttafólk. Þetta er allt annar málaflokkur, þau fá allt annars konar málsmeðferð, það er ekki sama þjónusta, það er bara allt annað. Þetta á ekki við um þau. Þau eru ekkert inni í þessum lagabálki sem við erum hér að fjalla um. (Forseti hringir.) Það er ekkert í þessum lögum sem tryggir stöðu hinsegin fólks á flótta, ekki neitt.