153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, einn angi af þessu er líka sá ómöguleiki sem er til staðar að sanna hjúskap eða samband. Það eru nú ekki öll ríki heimsins sem viðurkenna hjúskap hinsegin fólks, hreint ekki, og í fjölmörgum ríkjum heimsins er það dauðadómur að vera hinsegin. Hvernig ætlar þú þá að fara að því þegar þú hefur enga pappíra, að sanna það fyrir íslenskum stjórnvöldum að um sé að ræða maka? Þetta er auðvitað alger ómöguleiki þarna, fyrir utan að það er verið að taka af þeim hópi sem kemur hingað sem kvótaflóttamenn. Auðvitað má hrósa stjórnvöldum síðustu ára og áratuga fyrir eitthvað í einhverju, en við erum hér að fjalla um þetta frumvarp. Þá skulum við líka tala um það sem verið er að gera hér í þessu frumvarpi en ekki skreyta sig með einhverjum fjöðrum fyrri ára.