153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á ákvæðum tveggja reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins. Annars vegar svokallaðrar SFDR-reglugerðar, um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og hins vegar Taxonomy-reglugerðarinnar, um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu og um breytingu á reglugerð (ESB) 2019/2088.

Með SFDR reglugerðinni eru lagðar skyldur á aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir og í ráðgjöf og hvort og þá hvernig er tekið tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Með Taxonomy-reglugerðinni er komið á fót flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Efni reglugerðanna er nánar reifað í greinargerð frumvarpsins

Nefndinni bárust umsagnir og hún fékk á sinn fund gesti líkt og nánar er gerð grein fyrir í nefndaráliti. Að auki barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti um málið. Í umsögnum sem bárust nefndinni koma fram nokkur atriði sem ástæða er til þess að rekja nánar. Fram komu áhyggjur af því að þær hámarkssektarfjárhæðir sem kveðið er á um að heimilt verði að leggja á einstaklinga og lögaðila vegna brota á ákvæðum reglugerðarinnar væru háar, sérstaklega í ljósi skamms aðlögunartíma að efnisákvæðum þeirra. Meiri hlutinn bendir á að fjárhæðarmörk sekta í frumvarpinu eru í samræmi við önnur lög á sviði fjármálamarkaðar. Þó ber að taka fram að stjórnvöldum ber að gæta meðalhófs þegar til skoðunar kemur að beita íþyngjandi úrræðum. Atriði á borð við skamman aðlögunartíma að strangari kröfum sem og óvissa um túlkun nýrra krafna koma eðli máls samkvæmt til skoðunar við beitingu stjórnsýsluviðurlaga.

Þá voru gerðar athugasemdir við það að gildistaka frumvarpsins, 1. júní 2023, gæfi fyrirtækjum knappan tíma til þess að laga sig að þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt frumvarpinu. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið á sér nokkuð langan aðdraganda og var m.a. birt í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar 2022. Markaðsaðilum hafi verið ljóst í töluverðan tíma að þeir þyrftu að uppfylla umræddar kröfur fyrr en síðar.

Að lokum voru gerðar athugasemdir við að gildistaka frumvarpsins á miðju ári 2023 kynni að fela í sér afturvirkni, enda væri gert ráð fyrir því að aðilum bæri að birta upplýsingar samkvæmt 1. mgr. 9. gr. SFDR-reglugerðarinnar í ársskýrslum sínum á árinu 2024 vegna fjárhagsársins 2023. Meiri hlutinn telur að ekki beri að skilja ummæli í greinargerð, um að birta skuli upplýsingar samkvæmt 1. mgr. 9. gr. SFDR-reglugerðarinnar í ársskýrslum á árinu 2024 vegna fjárhagsársins 2023, svo að í því felist skylda til að birta upplýsingar sem verða til fyrir gildistöku laganna. Fellst meiri hlutinn því á það sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins að frumvarpið feli ekki í sér afturvirkni.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar efnislegar breytingar á frumvarpinu. Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða kemur fram að samtökin telji lágmarkstryggingavernd lífeyrissjóða falla utan gildissviðs SFDR-reglugerðarinnar og sé því ástæða til að undanskilja hana gildissviði laganna. Jafnframt telja samtökin að lífeyrissjóðir ættu ekki að falla undir 8. gr. Taxonomy-reglugerðarinnar, sem kveður á um skyldu til að birta upplýsingar um sjálfbærniþætti í yfirliti með skýrslu stjórnar með ársreikningum. Í minnisblaði ráðuneytisins er tekið undir þau rök sem færð eru fyrir afstöðu Landssamtaka lífeyrissjóða til skyldu lífeyrissjóða að veita upplýsingar um fjármálaafurð áður en samningur er gerður, að því er varðar móttöku skylduiðgjalds til lágmarkstryggingaverndar, en telur eðlilegt að þeim verði þó skylt að framfylgja ákvæðum SFDR-reglugerðarinnar við upplýsingagjöf á vefsetrum og í ársskýrslum varðandi starfsemi sína. Þá telur ráðuneytið að lífeyrissjóðir ættu að falla utan þeirrar skyldu sem kveðið er á um í 8. gr. Taxonomy-reglugerðarinnar. Meiri hlutinn vísar til nánari umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins, dagsettu 6. febrúar 2023, og gerir breytingartillögu ráðuneytisins að sinni.

Til viðbótar við framangreint tekur meiri hlutinn undir það sem fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands um að tilefni kunni að vera til að fella vátryggingamiðlara sem veita ráðgjöf vegna vátryggingatengdra fjárfestingarafurða og verðbréfafyrirtæki sem veita ráðgjöf og hafa færri starfsmenn en þrjá undir gildissvið reglugerðarinnar til þess að stuðla að trúverðugleika við fjármálaeftirlit og á fjármálamarkaði almennt. Í umsögn Seðlabankans kemur fram að óskýrleika gæti um eftirlitshlutverk fjármálaeftirlits bankans gagnvart því eftirliti sem gert er ráð fyrir að ársreikningaskrá verði falið að sinna samkvæmt 8. gr. Taxonomy-reglugerðarinnar, samanber 66. gr. d og 94. gr. laga um ársreikninga. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og gerir þá breytingartillögu sem fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins að sinni.

Að auki leggur meiri hlutinn til að skýrar verði kveðið á um það í 5. gr. frumvarpsins að sektarheimildum laganna sé einungis ætlað að ná til aðila sem falla undir 1. tölulið 1. gr. frumvarpsins.

Þá er lögð til ein breyting sem er tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í nefndaráliti..

Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Logi Einarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.