153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[18:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður höfum nú rætt nauðsynina á því að vera einhvern ramma utan um sjálfbærar fjárfestingar lengur en við höfum verið kollegar hér á þingi. Í fyrra lífi hv. þingmanns í stjórn Landssambands lífeyrissjóða þá ræddum við einhvern tímann hversu í rauninni bagalegt væri að stjórnvöld væru ekki búin að setja ramma utan um það sem gæti talist græn og sjálfbær fjárfesting vegna þess að það væri svo mikil eftirspurn eftir því hjá fjárfestum. Lífeyrissjóður sem eru að ávaxta fé til margra áratuga í þágu sjóðfélaga vill eðli máls samkvæmt geta sagt við fólk að samhliða því að ávaxta peninginn sé sjóðurinn að vinna í þágu betra samfélags. Núna erum við loksins að fá einhvern skýrari ramma í gegnum þær reglur sem hér koma til okkar samræmdar af Evrópusambandinu og ýmis stór og góð gagnsæisskref stigin í leiðinni. Þetta verður allt annað umhverfi að þessu loknu.

En mig langar að spyrja hv. þingmann út í deilur sem áttu sér stað á lokametrum afgreiðslu Taxonomy-reglugerðarinnar úti í Brussel. Það var nefnilega svo að framkvæmdastjórnin lagði til að útvíkka þá atvinnustarfsemi sem gæti fallið undir þessar reglur. Auk þess sem er hefðbundið og við skiljum sem sjálfbæra fjárfestingu þá bættist fjárfesting, t.d. í kjarnorku- og gasorkuframleiðslu, undir þennan hatt sjálfbærrar fjárfestingar. Þetta varð til þess að stór hluti Evrópuþingsins gat ekki stutt reglugerðina þegar til endanlegrar atkvæðagreiðslu kom og raunar hefur verið kallað eftir því að hin ýmsu þjóðþing innan Evrópusambandsins beiti sér gegn þessum hluta reglugerðarinnar sem snýr að fjárfestingu sem er ekki með góðri samvisku hægt að kalla græna. (Forseti hringir.) Mig langar bara að spyrja hvort nefndin hafi eitthvað fjallað um þessi álitaefni.