153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[19:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Kannski fyrst, af því að hv. þingmaður nefnir að við séum á eftir með þessa innleiðingu, að það er líka áhugavert að horfa um öxl og átta okkur á því að við hefðum getað verið langt á undan þessari þróun. Stjórnvöld hér á landi hefðu getað útbúið einhvern ramma þannig að fjárfestar og einstaklingar vissu svona sirka hvað væri að fara í græna fjárfestingu og hvað ekki. Við erum hins vegar ekkert mjög mikið á eftir innleiðingu þessarar gerðar sem slíkrar því að hún, ef ég man rétt, átti að taka gildi 1. janúar sl., þannig að á skala þeirra mála sem við erum eftir á að innleiða þá erum við nokkuð vel stödd með þetta. Hv. þingmaður nefndi Parísarsáttmálann og hann leiddi náttúrlega til þess að Evrópusambandið tók þessi mál mjög alvarlega, setti markmið og samþykkti lög um loftslagsmál og hluti af þeirri vinnu sem fór í gang er þessi reglugerð, hún er afrakstur hluta af þeirri vinnu. En vegna þess að á síðustu metrunum var bætt inn fjármálaafurðum sem tengjast mengandi iðnaði, sem tengjast því að brenna gasi eða nota kjarnakleyf efni til framleiðslu raforku, þá hafa náttúruverndarsamtök gengið svo langt að tala um að hér sé um grænþvott að ræða, að þetta gangi beinlínis gegn því markmiði að fólk viti hvert peningarnir þeirra séu að fara. Greenpeace eru t.d. að leita lögfræðiálits sem gæti síðan endað fyrir Evrópudómstólnum varðandi það hvort þessi hluti taxónómíunnar gangi hreinlega gegn loftslagslögum Evrópusambandsins og markmiðum (Forseti hringir.) sambandsins gagnvart Parísarsáttmálanum. Af því sem ég les þá sýnist mér hægt að taka þessa eiturpillu, (Forseti hringir.) sem þeir kalla, út úr taxónómíunni í stærra samhengi svo að ég myndi hvetja nefndina til að skoða hvort það væri hægt svo að Ísland væri með hreinustu mögulegu útgáfuna af þessu.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að ræðutíminn er 2 mínútur en ekki tvær og hálf.)